Þráinn snýr aftur

Þráinn Bertelsson skrifaði komment á nýlega færslu mína og var hissa að mér væri illa við hann.  Hann er fljótur að gleyma.  Árið 2004 þá skrifaði Þráinn Bertelsson hatursfulla grein þar sem hann tengdi trúleysi meðal annars við útlendingahatur og þjóðrembu.  Áhugaverð staðreynd að ráðstefnan okkar, Jákvæðar raddir trúleysis, er drifin áfram af tveimur trúlausum innflytjendum.  Það eru þær Hope og Karólína.

Þráinn Bertelsson fékk svar frá mér á sínum tíma sem Fréttablaðið birti reyndar á sínum tíma þó titlinum hafi verið breytt.

21 thoughts on “Þráinn snýr aftur”

  1. Merkilegt að bláókunnugur maður skuli lýsa því yfir á vefsíðu sinni að honum sé illa við mig vegna skoðana minna. Og ekki síst vegna skoðana sem hann gerir mér upp. Ég hef ekkert út á trúleysingja að setja frekar en trúaða, nema trúleysið eða trúin breytist í trúleysisrembu eða trúarrembu. Samanber það dapurlega sýnishorn sem hér getur að líta.

    Sérhver maður á heimtingu á því að skoðunum hans/hennar sé sýnd sama virðing og hún/hann sýnir skoðunum annarra.

    Með bestu kveðjum,
    Þráinn Bertelsson

  2. Ég geri þér ekki upp neinar skoðanir heldur er að vitna í orð þín, flettu upp á pistli þínum og lestu hann. Þú ert alveg hræðilegur hræsnari.

  3. Kannski að ég ætti að svara þessu betur. Ég ber ekki virðingu fyrir skoðunum nema að þær séu vel rökstuddar. Ég ber ekki virðingu fyrir skoðunum nasista af því að þær eru fáránlegar, ég ber ekki virðingu fyrir “sköpunarkenningunni” ef því að sönnunargögnin eru gegn henni og sama á við um trúarbrögð almennt.

    Ef þú gætir rökstutt þetta sem þú hélst fram um trúleysi þá væri það allt annað mál en þú getur það ekki því þetta voru bara einfaldlega fordómar í þér. Sérstaklega það að tengja það við útlendingahatur, það var bara fáránlegt.

    Ég skora á þig að koma með rök og dæmi, hér og nú.

    En skilaðu kveðju til Krumma.

  4. 1) Fyrir utan að lýsa frati á afríska knattspyrnumenn vegna þess að undirritaður hefur hlýjar taugar í garð þeirra og
    2) að viðbættri yfirlýsingu um áralanga óvild út af ímyndaðri móðgun er þetta komið út í
    3) persónulegar svívirðingar og argumentum ad hominem!
    Og svo skrifarðu á bloggsíðuna þína að þér líði mjög vel og lífið sé gott.

    Ég vona að það sé satt og ég valdi þér ekki frekara hugarangri.

    Bestu kveðjur,
    Þráinn Bertelsson

  5. Atriði er eitt er náttúrulega bara rugl, ég lýsti engu frati á knattspyrnumennina sjálfa.

    Einsog ég segi, bakkaðu upp skoðun þína með rökum og dæmum. Ef þú getur það ekki þá eru orð þín greinilega innantómt þvaður.

    Hvernig getur trúleysi tengst útlendingahatri? Rök og dæmi takk fyrir.

  6. Veistu það, Þráinn – við sem erum laus undan trú á guð eða guði og öðrum bábiljum viljum bara fá að vera með í samfélaginu – eins og gagnkynhneigður, samkynhneigðir, innfæddir, innfluttir, ríkir og fátækir. Við skiljum einfaldlega ekki af hverju við erum ævinlega sett til hliðar eins og úrkast.

  7. Ágæta Jórunn.

    “við sem erum laus undan trú á guð eða guði og öðrum bábiljum”…

    Sá sem rekur þessa bloggsíðu hefur af einhverjum ástæðum gert mér upp þá skoðun að ég hafi eitthvað á móti trúleysingjum sem er fáránlegt, því að trú eða trúleysi fólks liggur mér í nákvæmlega jafn léttu rúmi.

    Hið rétta er að ég hef amast við ofstæki í öllum þess myndum.

    Dæmi um ofstæki er að kalla trú fólks “bábiljur”. Ofstækisfólk, ofsatrúað og ofsavantrúað setur sjálft sig til hliðar í samfélaginu með því að sýna skoðunum annarra lítilsvirðingu.

    Með bestu kveðju,
    Þráinn Bertelsson

  8. Þráinn, þú ert þvílíkur hræsnari, segir fólki að bera virðingum fyrir skoðunum en gerir það ekki sjálfur. Ég gagnrýni skoðanir harkalega sem þú hefur oft gert sjálfur í gegnum tíðina en ég rökstyð þær, ég bakka þær upp.

    Rökstyddu skoðanir þínar. Komdu með rök og dæmi annars þá er þetta ekki annað en staðfesting á því að þú ert fordómafullur.

  9. Sæll aftur Þráinn. Ég kalla það einfaldlega bábilju sem haldið er fram sem staðreynd þótt aldrei hafi verið hægt að sýna fram á raunveruleika þess. Og þessvegna er það ekki ofstæki.

  10. Dæmi um ofstæki er að kalla trú fólks “bábiljur”.

    En ef fólk trúir á bábiljur? Má ekki kalla hlutinga sínum réttu nöfnum?

  11. Ég skil núna að ofstæki er í þínum augum sjálfsagður og eðlilegur hlutur (og þess vegna ekki ofstæki), svo lengi sem þú telur þig geta tínt til einhver rök sem styðja þinn málstað.

    Aldrei í mannkynssögunni hafa ofstækismenn verið uppiskroppa með rök.

    Nú hefur þú í tvígang á einum sólarhring kallað mig hræsnara, en þá nafngift hafði ég sloppið við hingað til á ævi sem er orðin nokkuð löng.

    Ég ætla því ekki að eiga lengur orðastað við þig, en óska þess í einlægni að þú eigir eftir að hætta að stanga heiminn með hnýflum rökhyggjunnar og skiljir að höfuðið er ekki barefli heldur ílát undir hugmyndir, enda held ég að þú verðir með tímanum mannelskur en ekki mannýgur.

    Með bestu kveðjum,
    Þráinn Bertelsson

  12. Jæja, ég spyr þig ítrekað hvernig trúleysi getur leitt til útlendingahaturs en þú getur greinilega ekki röktstutt þessa skoðun þína. Hvað ertu líka að tala um þegar þú segir ofstæki? Hvað varstu að tala um þegar þú skrifaðir greinina á sínum tíma?
    Þetta eru ekki flóknar spurningar Þráinn.

    Þú bara kvartar yfir að ég sé voðalega vondur þrátt fyrir að það hafir verið þú sem réðst á mig (þó ekki persónulega) fyrst í þessum bakþönkum þínum. Ég er kannski harkalegur en ég rökstyð allavega skoðanir mínar. Þú gerir slíkt ekki og ert greinilega ómerkingur.

  13. Í síðasta sinn skal ég ítreka þótt ég sé orðinn vondaufur um að þú skiljir ritað mál, að ég hef aldrei haldið því fram að trúleysi geti leitt til útlendingahaturs.

    Hins vegar fullyrði ég að ofstæki getur leitt af sér miklar hörmungar.

    Ef þú heldur áfram að gera mér upp skoðanir á opinberum vettvangi neyðist ég til að grípa til varna. Þú getur þá rökrætt að vild við lögfræðinga og dómara um hversu skynsamlegt það sé að kalla ókunnugt fólk hræsnara og ómerkinga og gera því upp skoðanir.

    Kk, Þráinn Bertelsson

  14. Burtséð frá því hversu dapurleg tómhyggja nútímans er, þá er trúarofstæki trúleysingjamanna ennþá dapurlegra. Fjandskapur við kristna trú sem brýst fram í hæðnisorðum og kaldhæðni er oft meinlítil miðað við þá illsku sem brýst fram í ofstæki og fjandskap gagnvart framanlegri trúarbrögðum – sem aftur leiðir til útlendingahaturs, þjóðrembu og fasisma.

    Hvað áttirðu við þarna ef þú áttir ekki við að trúleysið gæti leitt til útlendingahaturs?

  15. Það er dáldið gaman að þér þrátt fyrir allt. Nú á ég að sanna að ég hafi ekki átt við að trúleysi gæti leitt til útlendingahaturs. Hefur þér aldrei dottið í hug að búa til eilífðarvél?
    Í textanum mínum (sem er rangt stafsettur hjá þér) sést þér yfir eitt lítið orð, hugsanlega vegna þess að það passar ekki inn í þína heimsmynd. Orðið er “trúarofstæki”.

    Og ég er búinn að margreyna að útskýra fyrir þér að ofstæki er hættulegt. Ekki síst rökstutt ofstæki.

    Reyndu nú að róa þig og sendu mér ekki fleiri persónulegar svívirðingar.

    Kk, Þráinn Bertelsson

  16. Elífðarvél myndi brjóta gegn öðru lögmáli varmafræðinnar.

    En hvað áttu eiginlega við? Hvers vegna talar þú um útlendingahatur, fasisma og þjóðrembu í pistli þar sem er verið að tala um trúleysingja? Í besta falli þá hefurðu orðað þetta hryllilega illa orðað.

    Þegar við höfum afgreitt þetta þá getum við farið að ræða aðrar vafasamar fullyrðingar þínar í greininni.

    Og ég bið þig auðmjúklegrar afsökunar á því að hafa gert innsláttarmistök þegar ég var rita þetta inn í flýti.

  17. “Hvers vegna talar þú um útlendingahatur, fasisma og þjóðrembu í pistli þar sem er verið að tala um trúleysingja? Í besta falli þá hefurðu orðað þetta hryllilega illa.”
    Þú ert alveg óborganlegur. Veistu, Óli, að orðið “illmenni” kemur fyrir í Njáls sögu, þótt það sé ekki notað um Njál.

    Á innsláttarmistökunum þarftu ekki að biðja mig afsökunar, þau eru óviljaverk. Það voru svívirðingarnar ekki.

    Kk, Þráinn Bertelsson

  18. “Höfundur” Njálu var líka góður að orða hluti, þú virðist það ekki ef dæma af þessarri grein (allavega ef þú ætlaðir að segja það sem þú segist hafa ætlað að segja).

    Geturðu hætt að þykjast vera heilagur varðandi svívirðingar, það er auðvelt að sjá að í nærri hverri athugasemd hér að ofan þá hefurðu reynt að móðga mig.  Það að leika fórnarlambið er ekki til þess að blekkja neinn.

    Þegar ég les þennan kafla í samhengi greinarinnar í heild sinni þá get ég ekki séð annað en að þú sért að halda því fram að trúleysi, í öfgakenndri mynd þó, geti leitt til útlendingahaturs, þjóðrembu og fasisma.

    Ég veit líka að allir sem ég hef talað við sem hafa lesið þetta túlkuðu þetta á þennan veg líka. Jórunn sem hafði svo hátt álit á þér áður varð fyrir áfalli þegar hún las þetta á sínum tíma.

    Í pistlinum var reyndar fleira vafasamt, eins og þegar þú tengdir trúleysi við neysluhyggju, það að þú teldir að margir trúleysingjar væru trúlausir af því að þeir hefðu ekki pælt nógu djúpt í málunum og síðast en ekki síst þessi fáránlega afstaða þín að trúleysi sé á einhvern hátt dapurlegt. Þó að ég myndi gefa þér að þetta með útlendingahatrið sé bara skortur á ritsnilld af þinni hálfu þá eru þetta önnur dæmi um fordóma þína.

  19. Ég verð að segja eins og er, mér þykir undarlegt að fylgast með því hvernig Þráinn reynir að halda því fram að í umræddum pistli hafi hann alls ekki verið að tala illa um trúleysingja.

    Væri Þráinn til í að útskýra hvaða trúleysingja hann var að tala um í pistli sínum – getur hann nefnt einhverja sem falla í þann flokk – ef þetta á ekki við um okkur Vantrúarsinna, svo dæmi sé tekið.

    Hverjir eru þessir ofstækisfullu trúleysingjar Þráinn.

  20. Ég tek undir vonbrigði Jórunnar. Ég var yfir mig hrifin af bókinni “Einhvers konar ég” en varð svo fyrir vonbrigðum þegar ég sá bakþankapistilinn. Ég bjó að vísu erlendis þegar hann birtist en sá hann nú einhvern veginn samt…kannski á blogginu hans Matta. Hingað til hef ég talið lesskilning minn alveg prýðilegan og ég skil þennan pistil svo að trúleysingjar séu öðrum líklegri til að vera fórnarlömb tómhyggju og neysluhyggju og að þeir séu bölvaðir hrokagikkir. Hvað annað getur eftirfarandi klausa átt að þýða (og ef Þráinn er að lesa mætti hann gjarnan leiða mig í gegnum þetta ef hann hefur átt við eitthvað allt annað)?
    “Þessir blessaðir trúleysingjar feta svo sinn stíg út í lífið og líta á sjálfa sig sem æðsta vald í öllum málum […] Þessi raunalega og sjálfhverfa tómhyggja er hluti af skýringunni á því af hverju líf fólks snýst fyrst og fremst um ofneyslu og ofát og síðan yfirbót í formi megrunarkúra eða strangra leikfimiæfinga.”
    Ég tek það fram að þegar hér er komið sögu í pistlinum hefur enn ekki verið talað um ofstæki og svo er að skilja að “þessir” (blessuðu trúleysingjar) sem Þráinn vísar til séu einfaldlega þeir sem stunda trúarafneitun.

Lokað er á athugasemdir.