Vitleysan í Mogganum

Það virðast ekki vera mikil takmörk fyrir því hvaða vitleysa kemst að í Morgunblaðinu:

Á Íslandi er kristin trú og annað ekki
ÞAR sem ég sé í veffréttum blaðanna að til standi að stofna samtök ýmissa trúfélaga, þá vil ég koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

Íslenska þjóðin er kristin þjóð og svo hefur verið frá upphafi landnáms. Kristni var síðan ákveðin með lögum á Alþingi árið 1000 – til þess að koma í veg fyrir trúarbragðastyrjöld og stuðla að friði meðal landsmanna – og þau lög gilda enn.

Í stuttu máli sagt: Kristindómurinn er einu trúarbrögðin sem eru lögleg á Íslandi og öll önnur trúarbrögð eru þar með einfaldlega ólögleg, þar með talið búdda-, hindú-, múhameðs- og ásatrú.

Það að kirkjumálaráðuneytið skuli hafa skrásett ólögleg félög er að sjálfsögðu einnig ólöglegt og það er öllum viðkomandi til minnkunar.

Nú, þegar jafnvel sjálf þjóðkirkjan ætlar að binda trúss við ólögleg trúfélög, þá finnst mér augljóst að hin kristna íslenska þjóð verði að taka af skarið og setja biskupinn af, og jafnframt alla þá presta sem hafa svikið þjóðina með þessum hætti.

Tryggvi Helgason, flugmaður.

Ég hef ekkert við þetta að bæta.  Annars hlakka ég til að sjá umsagnir lögfræðinga á þessarri sérstæðu lagatúlkun.