Sjálfhverfasta bloggsamfélagið

Það er svoltið kjánalegt að lesa Moggabloggara segja:

Moggabloggið er að mínu mati best heppnaða íslenska bloggsamfélagið á netinu.

Hvaða þekkingu hefur þessi maður á íslenskum bloggsamfélagum? Hefur ekki einu sinni bloggað í hálft ár. Mér þykir Moggabloggið ekki spennandi. Sjálfur hef ég gaman af því að lesa um fólk en Moggabloggið er voðalega lítið um fólkið sem þar bloggar. Í stað þess fjalla bloggararnir þarna um skoðanir sínar á hinum og þessum málefnum. Þetta er náttúrulega að mörgu leyti einfaldlega athugasemdakerfi fyrir fréttir á vef Morgunblaðsins. Aðalmunurinn á Þjóðarsálinni og Moggablogginu er að skoðanir þeirra sem hringdu í útvarpsþáttinn sáluga náðu til stærri hóps. Moggabloggið minnir í raun frekar á Huga eða Málefnin frekar en þau blogg sem mér hefur þótt skemmtileg í gegnum tíðina.

Það verður samt áhugavert að fylgjast með Moggablogginu. Það eru margir bloggararnir þarna vilji slá í gegn og fá að komast að á einhverjum fjölmiðlum þar sem þeir fá borgað fyrir að tjá sig. Það mun líklega ekki gerast. Moggabloggið er líka svo mikið elítusamfélag. Það eru fjölmargir sem blogga þarna en það er fámennur hópur sem kemur þarna inn á aðalsíðu Moggans. Það er einmitt þessi “elíta” sem mann grunar um að vilja fá peninga fyrir skrif sín þegar fram í sækir. Mig grunar semsagt að þessi “elíta” muni verða Moggablogginu að falli. Fólk sem er að blogga þarna til auglýsa sjálft sig mun annað hvort verða of þreytandi til lengri tíma eða verður sjálft þreytt á að bíða eftir tilboðum. Ég held að Moggabloggið hafi nú þegar toppað og muni alls ekki halda þessum dampi til lengdar. Kannski að markmið þeirra ætti að vera “mjúk lending”. Hvernig sem þessi lending verður nú annars þá myndi ég að hún eigi eftir að verða einhvern tímann eftir kosningarnar í vor. Þá verða nöldrar landsins orðnir leiðir á sér og öðrum.

Á sínum tíma voru rss.molar.is áhugaverðasta og skemmtilegasta bloggsamfélag landsins. Á því er enginn vafi enda var þetta eina bloggsamfélagið sem hafði slíkan kjarna sem Molarnir voru. Á sínum tíma þá þurfti fólk að blogga um það bil einu sinni á dag til að halda sér þarna inni. Sú tíð er liðin. Molarnir risu og féllu. Þarna þá bloggaði fólk um fræga fólkið sem það hafði hitt, uppáhaldsteiknimyndasögur sínar og heimilistæki sem voru biluð heima hjá því (skýring í síðasta kafla þessarar greinar). Þarna gátu gengið yfir nostalgíuköst (til dæmis yfir teiknimyndaþáttunum Gullborgirnar). Fólk talaði um sömu hlutina frá ólíkum sjónarhornum og þó að pólitík kæmi þar við sögu þá var hún alls ekki ráðandi.

Að mínu mati þá er (eða var) Ármann Jakobsson konungur bloggformsins. Hann stundaði að skrifa fyndnar, stuttar og hnitmiðaðar færslur um hvað sem honum datt í hug. Því miður virðast Moggabloggarar líta fremur á Egil Helgason og Björn Bjarnason sem fyrirmyndir sínar í blogginu. Mér finnst að ég ekki þurfa að rökstyðja hvers vegna skrif þeirra tveggja eru óspennandi fyrirmyndir. Snilldarfærslur Ármanns hefðu væntanlega aldrei komist á forsíðu Moggans ef hann hefði verið bloggað þar.

Ég sakna Molana en sem betur fer þá eru ekki allir bloggarar í dag að blogga að hætti Egils og Björns. Ég get ennþá lesið álit fólks á menningu (í breiðri merkingu þess orðs) og sögur úr lífi þess. Ef ég nenni að lesa endalaust um dægurþras þá get ég lesið Moggabloggin en ég efast einhvern veginn um að ég geri mikið af því.

* Að sjálfssögðu eru áhugaverðir bloggarar (sem skrifa blogg en ekki pistla) á Moggablogginu en það eru ekki þeir sem falla inn í það sem ég uppnefni “elítuna”. Bryndís vinkona mín skrifar til dæmis skemmtilegar færslur. Hún á líka inni fast boð um að blogga á Truflun.

8 thoughts on “Sjálfhverfasta bloggsamfélagið”

  1. Takk Óli.

    Mér finnst sum Moggablogg bara ágæt. Þar er eldra fólk sem annars hefði ekki dottið í hug að blogga og gaman að lesa sumt af því. Það er ekki allt Moggablogg prinsessublogg.

  2. Ekki eru nú allir Moggamenn sáttir við að aðrir séu ósáttir við Moggabloggið, Krummi sendir frá sér hrafnaspark þar sem hann skammast sérstaklega út í ,,hatur” Stefáns á Moggablogginu.

    …já það er fjör…

Lokað er á athugasemdir.