28 ára

afmaeli.jpgRokkstjörnuferill minn hefst í dag. Ég hef náð því að verða 28 ára og er ekkert ósáttur við aldurinn.  Afmæli eru góð til þess að skoða það hvar maður er staddur, hvar maður hefur verið og hvert maður er að fara.

Ég er ánægður með það hvar ég er í dag.  Ég hef aldrei lifað jafn skemmtilegu lífi. Vandamál mitt er yfirleitt það að ég hef of lítinn tíma fyrir allt sem mig langar að gera. Ég umgengst dagsdaglega alveg frábært fólk. Við Eygló höfum náð aftur saman eftir erfiðleikatímabil. Ég er heppinn maður.

Fortíðin er ekki jafn frábær en ég læt hana ekki ergja mig í nútíðinni.  Reyndar má segja að síðustu fimm ár hafi verið ákaflega góð, merkilegt nokk (og líklega er það ekki tilviljun) þá er það um það bil sá tími sem ég hef búið í Reykjavík.

Framtíðin lítur vel út.  Túdú-listinn minn lengist. Ég á mjög líklega eftir að eyða meiri tíma erlendis á þessu ári en nokkru sinni fyrr. Ég mun vonandi vinna að áhugaverðri rannsókn og skrifa töluvert í minni áhugaverðu MA-ritgerð. Hugsanlega mun ég flytja eins og einn fyrirlestur. Versti hlutinn við allt þetta er að ég þarf víst að skrifa ótal umsóknir en maður verður að lifa með því.

Í dag tek ég á móti gestum að heimili mínu frá klukkan þrjú. Þetta er að sjálfssögðu fyrst og fremst afsökun fyrir því að baka. Kleinurnar eru til, skúffukakan líka en kremið á hana og möffinsið er ekki komið.