Þegar ég fór áðan í Bónus þá tók ég eftir nýjung, Kókómjólkin er komin í nýjar umbúðir. Ég hef drukkið töluvert af Kókómjólk í gegnum tíðina og yfirleitt hefur það verið í gömlu góðu 250 ml umbúðunum. Reyndar hef ég líka fengið Kókómjólk úr lítrafernum og mig minnir að um 1990 þá hafi til skamms tíma verið til 200 ml fernur. Ég var aldrei hrifinn af þeim umbúðum.
En nýju umbúðirnar eru fínar fyrir mig, ég veit ekki hvort þær séu krakkavænar. Þetta eru semsagt svona 320 ml flöskur svipaðar þeim sem eru notaðar undir drykkjarjógúrt og slíkt dóterí frá MS.
Það sem vakti athygli mína var hins vegar verðlagið. Ein kippa með sex 320 ml flöskum kostar 588 krónur í Bónus á meðan sex 250 ml fernur kostuðu 321 krónur síðastliðinn laugardag í Bónus.
Hér eru síðan útreikningar á því hvað lítraverðið er:
- 98 * 6 = 588 320 * 6 = 1920 588 / 1,92 = 306,25 per lítra
- 53,5 * 6 = 321 250 * 6 = 1500 321 / 1,5 = 214 per lítra
Það munar semsagt nærri 90 krónum á lítraverðinu. Er vaninn ekki að lítraverð lækki þegar magnið eykst? En hver er munurinn á gömlu fernunni og nýju flöskunni? Það eru 70 ml meira í nýju umbúðunum og við skulum reikna hvað magnið í þeim myndi kosta á verðinu sem er á gömlu fernunum.
- 0,07 * 214 = 14,98 98 – (14,98 + 53,5) = 29,52
Það munar semsagt um 30 krónum á nýju og gömlu umbúðunum. Hvað kostar ein svona lítil veigalítil plastflaska? Kostar hún svona mikið meira en gömlu góðu pappafernurnar? Vildu Neytendasamtökin ekki að maður tæki vörur í fóstur? Ég ætla allavega að benda þeim á þetta.
haha, var einmitt í miklum kókómjólkurpælingum þegar ég sá þessar umbúðir í gær, gott að fá svona fína úttekt á þessu 😉 Mjög dularfullur verðmunur
Alveg vissi ég að ég fengi komment frá þér.
Kókómjólk er mikilvægur hluti af heiminum! 😉