Ég fékk vægan hroll þegar ég las þessa færslu sem Gísli Freyr Valdórsson skrifaði. Nenni ekki að tjá mig aftur um umræddan kennara en þetta komment kallar á athugasemd:
Hvernig ætli þessu væri farið í einkareknum háskóla þar sem nemendur eru viðskiptavinir en ekki baggi á skólanum?
Þvílíkur hryllingur að ímynda sér það að kennarar og starfsfólk Háskólans myndu líta á mig sem viðskiptavin. Get ekki hugsað til þess ef maður færi að spjalla við Terry og Valdimar og þeir myndu hugsa um mig sem viðskiptavin sem þurfi einfaldlega að afgreiða.
Ég veit að ég er einstaklega heppinn með kennara en ég held að það sé leitun að kennurum í HÍ sem líta á nemendur sína sem bagga. Ég tel mig líka þekkja ágætlega til þar sem ég hef stundað nám við skólann í nærri fjögur ár og tekið kúrsa í þremur deildum. Þar að auki hef ég verið nemendafulltrúi og sem slíkur hef ég unnið með kennurum. Reglan er sú að þeir vilja allt fyrir nemendur sína gera.
Vissulega mætti ýmislegt gera betur í Háskóla Íslands en það að kennarar fari að hugsa um nemendur sína sem viðskiptavini er ekki eitt af þeim atriðum.
Ég tek strax fram að ég er algjörlega sammála mér – en um leið fer ég að velta fyrir mér hvort það þyrfti samt ekki átak til þess að breyta hvernig við hugsum um hugtakið viðskiptavinur. Ég sem búðarstarfsmaður er alveg jafnmengaður að þessu og flestir, kúnninn er miklu oftar einhver til þess að afgreiða en einhver persóna til þess að eiga samskipti við. Sem er samskiptamynstur sem manni leiðist oft en festist samt alltaf í, hvort sem um er að ræða samfélagsvenjum, eðli samskiptanna eða einhverju öðru – en allavega þá verð ég oft þreyttur á góðandaginntakk/3980kr/takkfyrirbúiðbless en maður finnur alltof sjaldan leið út úr þessu nema með fólk sem maður þekkir. En sem betur fer er Háskólinn laus við þetta, þótt hann eigi það vissulega til líka að detta í sjálfvirknina …
Á Bókhlöðunni er óskrifuð regla að tala ekki um viðskiptavini heldur safngesti.
Það er nú leiðinlegt að þú skulir fá „hroll“ Óli minn, yfir sársaklausum skrifum.
Það sem ég var einfaldlega að benda á að í mörgum tilfellum sem ég þekki bæði sjálfur og hef heyrt frá öðrum hafa nemendur lítinn sem engann rétt á kröfu á kennara þegar eitthvað svona gerist.
Þetta sama á við um einkunnaskil. Nemendur hafa fá úrræði þegar kennarar draga það að skila einkunnum. Svo dæmi sé tekið eru fjölmörg dæmi um það að fólk er ekki að fá námslánin sín vegna þess að einkunnaskil hafa dregist töluvert. Nú er ég ekki á námslánum þannig að ég þekki það ekki, en engu að síður eru dæmi um þetta.
Ef fólk væri að ,,kaupa“ þjónustuna við HÍ hefðu það meiri kröfu á almenna þjónustu.
Rétt er þó að taka fram að sem betur fer eru ekki mörg dæmi um þetta, ætli flestir kennararnir séu ekki að standa sig ágætlega.
En ef nemendur eru ekki viðkiptavinir skólans, hvað eru þeir þá? Eru þeir þarna bara upp á náð og miskunn kennarana?
Nemendur eru nemendur og það tel ég töluvert hærri og betri stöðu heldur en það að vera viðskiptavinur. Þeir eru augljóslega ekki þarna upp á náð og miskunn kennara heldur þurfa kennarar að fara eftir lögum og reglum skólans. Þeir eru teknir fyrir ef þeir standa sig ekki. Kennurum er veitt aðhald af yfirmönnum sínum og af nemendafulltrúum (skorar-, deildarfunda-, deildarráðsfulltrúm og stúdentaráðsliðum).
Nemendur geta leitað til nemendafulltrúa ef eitthvað er að. Ég þekki sjálfur til dæmis þar sem stundakennari var látinn hætta af því að hann stóð sig ekki í kennslunni (reyndar fleiri en eitt þegar ég hugsa um það). Ég veit líka um kúrsa sem hafa verið algjörlega endurskipulagðir eftir að aðfinnslur nemenda. Kerfið virkar nefnilega yfirleitt.
Þegar kennarar hafa ekki staðið sig í einkunnaskilum þá er það yfirleitt vegna þess að eitthvað hefur komið upp á og slíku væri ekki bjargað með breyttu rekstrarformi. Ég held hins vegar að það komi vel til greina að minnka tímann sem kennarar hafa til að skila einkunnunum. Þá væri líka hægt að meta fyrirfram hvort að ákveðnir kúrsar væru þess eðlis að þeir krefðust lengri yfirferðartíma.