Ósmekkleg Moggablogg

Almennt er það held ég bara fínt að hægt sé að segja skoðanir sínar á fréttum Morgunblaðsins og Vísis.  Oft er þar um að ræða mál sem fínt er að fólk tjái sig um.  Mér var til dæmis ekkert illa við það að einhverjir (minnihlutinn þó) væru að lýsa yfir vanþóknun sinni á Vantrúarbingóinu.  Við vissum vel fyrirfram að það yrði líklega umdeilt og vorum fullkomlega sátt við að fá slíka gagnrýni á okkur.  En það á bara ekki alltaf við að leyfa athugasemdir við fréttir.

Um daginn lenti vinkona mín í bílslysi í hálku og það kom frétt um það á Netmogganum.  Eftir einhvern tíma þá voru komin blogg við fréttina, meðal annars frá einhverjum sem var með einhverjar hugleiðingar um að kannski hafi hálka ekki verið ástæðan fyrir slysinu.  Verri voru reyndar kommentin hjá honum sem voru mörg hver afar fíflaleg.  Það er nógu slæmt að lenda í bílslysi án þess að þurfa að sjá vanvita sem ekkert vita um aðstæður á slysstað vera með getgátur um hvað gerðist.  Það er fullkominn óþarfi.

Ennþá verra var þó það sem ég sá í gær.  Þá var einhver fáviti að blogga um frétt um týndar konur.  Þar var hann með einhverjar ágiskanir um að þær væru bara í felum.  Ég get ekki ímyndað mér hve ömurlegt það sé fyrir vini og vandamenn þessarra kvenna að sjá svona hálfvita tjá sig um málið.

Þetta eru bara dæmi sem ég man eftir í augnablikinu.  Það má samt bæta því við að mér þykir óþarfi að fólk fái að blogga um alvarlega glæpi, til dæmis morðmál.  Fólk getur verið svo mikið fífl í svona aðstæðum.  Þar að auki virðist þetta oftast vera bara athyglissýki í þessu fólki, sérstaklega á Moggablogginu (athugasemdirnar á Vísi eru bara allt annars eðlis þó þær geti líka verið ósmekklegar og heimskulegar).

Mogginn og Vísir þurfa að taka á þessum málum.  Það eru nokkrar lausnir sem eru færar.  Ein leið væri að banna algjörlega komment á ákveðnar fréttir.  Einnig væri hægt að fara þá leið að það þyrfti að samþykkja komment/blogg um sumar tegundir af fréttum.

Þó það sé ekki beintengt þessu þá mætti líka banna sumu athyglissjúka fólkinu að blogga um fréttir eða kannski setja takmörk á það hve hægt er að blogga um margar fréttir á hverjum degi.  Það er svo bjánalegt að sjá sama fólkið blogga innihaldslaust um nákvæmlega allar fréttir sem birtast á Mogganum.

7 thoughts on “Ósmekkleg Moggablogg”

  1. Hey, kommon! Þetta er því miður einn af þeim vanköntum sem fylgir málfrelsinu! Banna fólki að blogga um ákveðna hluti? Ég bara hef aldrei heyrt annað eins!
    Auðvitað er leiðinlegt þegar fólk hegðar sér svona, en hvernig ætlar þú að hákveða hver sé athyglissjúkur og hver ekki?

  2. Ég er ekki að segja að það eigi að banna fólki að blogga um eitt né neitt, ég veit ekki hvernig þú ferð að oftúlka þetta svona.

    Ég er að tala um þegar þessi blogg eru tengd inn á fréttir hjá fjölmiðlum. Ef þú kemur inn á frétt hjá Mogganum um týnda konu og til hliðar er blogg hjá einhverju fífli sem segir „hún er örugglega bara að fela sig“ þá finnst mér Mogginn hafa brugðist. Sumar fréttir eru þess eðlis að það ætti ekki að hægt að láta bloggfærslur tengjast fréttinni (allavega ekki frá fréttinni inn á bloggið, af bloggi á frétt er allt annað).

    Varðandi fjölda blogga þá á það sama um. Fólk mætti alveg skrifa 30 færslur um fréttirnar á dag en mér finnst að Mogginn mætti alveg takmarka það við kannski 1-3 færslur frá hverjum sem birtast við fréttir þeirra á hverjum degi.

  3. Ég er sammála þessu. Mogginn þarf að ritstýra fréttavefnum sínum. Bloggvefurinn er allt annað mál, fólk á náttúrulega að geta bloggað þar óhindrað.

    En þessar bloggvísanir við fréttir eru algjörlega misheppnað fyrirbæri, eins og hugmyndir er nú góð.

  4. OK, sorrý, ég skil þig núna, mér fannst þetta líka eitthvað fáránlegt… Ég las bara að þér finndist að það ætti að banna fólki að blogga um fréttir af slysum og fannst það frekar steikt….

  5. Ég segi allavega fyrir mig að ég er farinn að halda mest upp á RÚV.is þessa dagana. Ástæðan er sú að þá er ég laus við það að einhverjir apar út í bæ eru að kommenta eða blogga einhverja vitleysu við fréttirnar. Ég spái því að allavega verði kommentakerfi Vísis aflagt áður en langt um líður.

  6. Væri ekki betra að fólk gæti bara flaggað ósmekklegar færslur við fréttir. Nógu mörg flögg yrðu þá til þess að færsla yrði skoðuð og hugsanlega fjarlægð.

    Svo væri auðvitað best ef maður gæti valið að sjá ekki færslur frá sumu fólki. Það þyrfti ekki að vera flókið. Algjör viðbjóður sumir landa okkar.

    Annars finnst mér ekkert nauðsynlegt að skýla aðstendendum eða þeim sem fréttir fjalla um fyrir heimsku fólks. Þetta fólk eru minnt á það í athugasemdum að þeir séu hálfvitar og e.t.v. læra þeir lexíu sína af því.

    Kannski má líta á þetta sem kennslutæki.

    Sjálfur væri ég til í að banna sumt fólk (ekki bara banna þeim að tjá sig um ákveðin mál á mbl.is). En kostirnir við að hafa þetta svona eru mun fleiri en kostirnir við að hafa einhvern Bloggzar sem ákveður um hvað fólk má tjá sig og um hvað ekki.

Lokað er á athugasemdir.