Um ritskoðun og vitleysu

Kristján G. Arngrímsson skrifar um raunvísindi í Mogganum.  Ég benti nýlega á grein hans Moggablogginu sem var full af vitleysum og var harkalega tekin fyrir af raunvísindamönnum.  Þessir raunvísindamenn lögðu í leiðinni til að fjölmiðlar fengu einhverja sem hefðu vit á málunum til að fjalla um þessi vísindi.  Svar Kristjáns er að þetta sé tilraun til ritskoðunar.

Segjum nú að ég væri fenginn til að skrifa um bókmenntir í Morgunblaðið.  Ég myndi skrifa mínar greinar þar sem ég tala um að Þórbergur Þórðarson hafi skrifað Íslandsklukkuna og fleira gáfulegt.  Bókmenntafræðingar myndu væntanlega svara með því að biðja um að einhver sem hefði eitthvað vit á bókmenntum væru fengnir til að skrifa um þær.  Ef ég væri eins og Kristján þá myndi ég augljóslega svara með því að ásaka gagnrýnendur mína um ritskoðunartilburði.

Ef fjölmiðlaumfjöllun um hugvísindi væri á sama plani og raunvísindablaðamennska Kristjáns þá værum við illa stödd.  Þá myndi fólki jafnvel ekki þykja neitt undarlegt að fjölmiðlamenn rugluðu saman Þórbergi og Laxness.  Raunvísindablaðamennska á Íslandi er á því stigi að vitleysan er reglan en ekki undantekningin.

Er það ritskoðun að biðja um að þeir sem skrifi um mál í fjölmiðlum hafi eitthvað vit á því sem þeir eru að tala um?
Það er ekkert að því að Kristján tjái sig um vísindi en þegar sú umfjöllun er undir merkjum Morgunblaðsins þá er hún þeim fjölmiðli einfaldlega til skammar.  Morgunblaðið hefur metnaðarfulla umfjöllun um hugvísindi. Ég spyr því hvort að það væri ekki viðeigandi að blaðið myndi hafa allavega brot af þeim metnaði í raunvísindaumfjöllun sinni?