Það sem skiptir mig máli

Steingrímur Joð hefur aðra skoðun á bjórnum en hann hafði fyrir 20 árum. Það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart en af einhverjum ástæðum þykir það fréttnæmt. Ég er ekki alveg viss um hvað gerir þetta fréttnæmt. Ég er reyndar ekki einn af þeim sem telur að afnám bjórbannsins hafi verið merkur áfangi í Íslandssögunni.

Það virðist hins vegar vera takmarkaður áhugi að ræða hluti eins og það hvernig var staðið að sölu ríkisbankanna. Ef einhver úr VG vogar sér að minnast á málið þá er sá umsvifalaust spurður hvort að flokkurinn ætli að þjóðnýta bankana!
Stuðningur stjórnarflokkana við árásarstríðið í Írak er ekki til umræðu. Þar gengu þeir gegn vilja landsmanna í von um að Bandaríkjamenn myndu launa þeim greiðann seinna, sem þeir gerðu ekki. Það er ekki heldur rætt um hve illa stjórnin samdi af sér þegar herinn fór.

En hvað um það. Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um það hvernig þjóðfélag við viljum búa í. Viljum við halda áfram á þeirri braut sem ríkisstjórnin hefur markað eða viljum við snúa við og reyna að búa til skandínavískt velferðarríki? Menntun og heilsugæsla fyrir alla. Mér er í raun alveg sama hverjir eiga fyrirtæki og hvort þeir bjóði tónlistarmönnum til að spila í afmælunum sínum. Ég veit hins vegar að það eru ekki allir sem hafa það gott á Íslandi og það veldur mér áhyggjum.

Mestu máli skiptir mig að börn þurfi ekki að gjalda fyrir það hvar í þjóðfélagsstiganum foreldrar þeirra standa. Ég kýs VG af því að ég veit að þar er fólk sem hugsar eins og mun gera sitt besta til að jafna tækifærin. Þetta er það sem skiptir máli. Bjórinn skiptir hins vegar engu fokkings máli.