Minnihlutastjórn og leikþættir

Ég játa að mér finnst hugmyndir um minnihlutastjórn hljóma ágætlega. Aðalatriðið er að þetta er mjög lýðræðisleg hugmynd.  Nú myndu einhverjir spyrja “bíddu við, hvernig getur verið lýðræðislegt að minnihluti fari með völdin?” Á móti spyr ég bara hvort að það sé lýðræðislegt að meirihlutinn stjórni alltaf. Það er þannig að ef 51% myndu alltaf kjósa sama flokkinn þá myndi sá flokkur alltaf geta stjórnað. Það þyrfti því aldrei að hlusta á þau 49% sem ekki kusu flokkinn.  Þetta er augljóslega ekki sanngjarnt.

Spurningin er hvort að þetta gangi upp.  Ég væri allavega til í reyna.  Ég er viss um að það ekkert væri betra fyrir Framsókn heldur en að styðja svona stjórn.  Það væri bara klókt. Jón Sigurðsson virðist vera skotnari í Sjálfsstæðisflokknum en hið augljósa er þetta er ekki hans ákvörðun í raun. Það eina sem gæti haldið lífi í núverandi ríkisstjórn er þrá Jóns til að vera áfram ráðherra.  Ég hef ekki trú á slíku framhaldslífi.  Hver einasti Framsóknarmaður hefur neitunarvald á þá stjórn og einhver þeirra mun nýta það.

Þó að þeir segi það ekki upphátt þá eru margir sem líta á Jón sem tímabundinn formann.  Það er ekki til betri leið til að losna við áhrif hans heldur en að útiloka hann frá völdum.  Með Framsókn styðjandi minnihlutastjórn þá hefðu þingmenn hans enn áhrif en ekki formaðurinn.  Verður Jón formaður í lok kjörtímabilsins? Ég held ekki.

En við verðum að gera okkur grein fyrir því að allt sem fer fram í fjölmiðlum er bara ein stór leiksýning.  Stjórnmálamenn eru hér með spuna til að koma sem best út til að réttlæta það sem þeir vilja í raun gera.  Á bak við tjöldin er eitthvað allt annað að gerast og ég er viss um að allir eru að tala við alla, óformlega augljóslega, hvað sem opinberlega er sagt.

Ég er nokkuð viss um að Geir hefur engan áhuga á áframhaldandi ríkisstjórn.  Hann er hins vegar nógu snjall til að vita að hann á ekkert að gefa slíkt upp opinberlega.  Á meðan á því stendur þá virðist hann hafa trompin á hendi, en svo er ekki.  Á meðan Geir talar við Jón þá getur hver sem er talað við Guðna og Siv, þau hafa raunveruleg völd en formaðurinn ekki.

Össur reyndi í gær að halda því fram að Ögmundur væri rosalega spenntur fyrir ríkisstjórn VG og Sjálfsstæðisflokksins.  Sá leikþáttur Össurs var augljóslega undirbúningur fyrir það ef Samfylking ákveður að fara með Sjálfsstæðisflokknum.  Þeir vilja geta sagt að í raun hafi þeir bara komið í veg fyrir að D+V stjórn.

Er raunverulegur möguleiki á D+V stjórn?  Ég held ekki. Það gætu samt verið einhverjir sem eru spenntir fyrir slíku.  Það myndi bara ekki ganga upp. Það eru engin málefni sem sameina flokkana.

Það sem hefur verið kallað R-listastjórn er ólíklegt núna.  Ég held að minnihlutastjórn sé líklegri.  Framsóknarflokkurinn myndi þá fá tíma til að taka til hjá sér.  Það yrði líklega valdauppgjör.  Það er mjög skrýtið að sjá flokk þar sem ritari og formaður eru utanþings. Það er ljóst að Siv vill eitthvað meira en hún hefur. Valgerður kemur sterk út eftir kosningarnar.  Það háir henni þó út á við að hún er andlit stóriðjustefnunnar. Síðan er það Guðni sem stökk ekki með Halldóri.  Hann er ekki illa settur eftir kosningarnar og hann hefur alltaf haft metnað.  Hver verður næsti formaður? Ég get ekki spáð um það en mig grunar að þessi þrjú vilji það öll. Sumir nefna Binga en ég held ekki.  Hann er í meirihluta með Sjálfsstæðisflokk og það vekur bara upp óheppilegar minningar.

Hver veit síðan hvað gerist eftir að nýr formaður tekur við? Ef minnihlutastjórn S+V væri þá gæti vel gerst að endurhæfð Framsókn myndi vilja verða fullgildur meðlimur í slíkri stjórn. Hver veit. Sama hvernig fer þá er alveg eins líklegt að stjórnarmynstur muni breytast í kjölfar uppgjörs innan Framsóknar.

Þetta er orðin alltof löng færsla um stjórnmál.

3 thoughts on “Minnihlutastjórn og leikþættir”

  1. …en góð. Ég er alveg sammála þér, mér finnst mest spennandi kosturinn vera minnihlutastjórn. Það er mjög stór áskorun fyrir alla flokka um að sýna þroska. Minnihlutastjórn finnst mér vera lýðræðislegri og krefst auðvitað meira samráðs og málamiðlana. En það er þetta með þroskann…

  2. Bingi getur vel orðið formaður. Það binda næstum allir Framsóknar menn á höfuðborgarsvæðinu vonir sínar við hann sem einhvern framtíðarfrelsara og ef flokkurinn ætlar að verða eitthvert power í framtíðinni þurfa þeir að koma sér úr bændaflokksbolnum í borgaraflokksbolinn. Bingi er sá maður held ég.

    Valgerður yrði aftur á móti erfiður andstæðingur enda hún siguvegarinn innan Framsóknar eftir þessar kosningar.

    Annars vil ég Framsókn úr ríkisstjórn. Þeir þurfa að hvíla sig og hugsa sinn gang, annars deyja þeir út eftir fjögur ár. Mér hugnast mest D+S.

  3. Ja, ef flokkurinn vill áfram reyna að verða Reykjavíkurflokkur þá gæti verið að þeir telji Binga manninn í það hlutverk. Ég held hins vegar að það verði frekar þannig að flokkurinn hverfi frá þeirri stefnu (enda hefur hún mislukkast algjörlega).

Lokað er á athugasemdir.