Deep Heep

Við fórum á tónleika í kvöld. Fyrirfram var ég búinn að gefa mér að Uriah Heep, fyrri hljómsveit kvöldsins, yrði betri. Ég hafði rétt fyrir mér. Þeir höfðu ekki nema klukkutíma en þeir náðu að skila sínu vel. Ég saknaði augljóslega nokkurra laga en ekkert alvarlegt.

Ég hef lengi haft þá kenningu að Uriah Heep sé fyrirmyndin að Spinal Tap að því leyti hve mikið flökt er á hljómsveitarmeðlimum (um þrjátíu manns hafa verið meðlimir, sumir oftar en einu sinni).  Nýjasti meðlimurinn byrjaði í hljómsveitinni í síðasta mánuði og það var trommari. Hann varð ekki sjálfskviknun að bráð í þetta sinn. Mick Box gítarleikari er sá eini sem hefur verið í hljómsveitinni frá upphafi. Hann var líka voðalega skemmtilegur á sviði. Söngvarinn hefur reyndar verið með í 21 ár sem er nú alveg meiripartur starfsævi hljómsveitarinnar
Ég hélt eiginlega að Deep Purple yrði skemmtilegri. Mig minnti að þeir ættu fleiri góð lög. Þeir voru ekkert lélegir en í sannleika sagt þá minnti þetta mig dáltið á tónleikana sem ég fór á með Europe. Hljómsveitin var fullmikið í því sem ég myndi flokka sem rúnk. Nú tek ég fram að ég er alveg hrifinn af slíku í hófi (hjá hljómsveitum) en mér þótti þetta bara óhóflegt og ekkert sérstaklega vel útfært. Það er rétt að taka fram að mér sýndist flestir þarna vera hrifnari en ég.

Ef Heep kemur aftur þá förum við aftur.

Leave a Reply