Hundfúll yfir Strætó

Bréf til Strætó (í gegnum fyrirspurnarkerfi þeirra):

Þetta er ekki beint fyrirspurn heldur kvörtun (það eru þó fjölmargar spurningar í textanum sem ég vildi fá svör við). Ég nota Strætó á nær hverjum degi. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af yfirvofandi breytingum á leiðarkerfi Strætó vegna þess að það kom hvergi fram að minni leið, S4 úr Bökkum yfir í Háskóla Íslands, yrði nokkuð breytt. Nú vakna ég á sunnudagsmorgni og það er búið að slátra leiðinni minni.

Hvernig vogið þið ykkur að koma svona fram við viðskiptavini ykkar? Þetta eru svik og ekkert annað. Ætlið þið að endurgreiða mér Rauða kortið sem ég keypti í góðri trú (enda hvergi búið að gefa í skyn að minni leið yrði breytt)?
Ég hef áður reynt að nota aðrar leiðir til að komast leiðar minnar, fyrst 17 og síðan skipt yfir í S3 í Mjóddinni en það er bara ekkert hægt að treysta á að S3 sé ekki löngu farinn þegar maður kemur niður í Mjódd. Ef ég væri að treysta slíkum skiptingum núna þá verð ég bara einfaldlega að fara að eyða hálftíma á dag í Mjóddinni.

Ég hef núna notað þessa leið í tvö ár og ég veit að þessi breyting er slæm. Það er yfirleitt þannig að einn stærsti hópurinn sem tekur þessa leið fer annað hvort út hjá Landsspítalanum eða Háskólanum. Ég veit ekki hvaða hóp þið ætlið að fá í staðinn með því að senda leiðina niður í tún.

Það hve illa þessi breyting er kynnt verður án efa til þess að fjölmargir enda á vitlausum stað á morgun. Mig grunar að þetta eigi eftir að koma sér sérstaklega illa fyrir innflytjendur.

Ég ætlaði að fara að kynna mér hvaða leið ég gæti farið í fyrramálið en Ráðgjafinn ykkar segir ennþá að S4 fari gömlu góðu leiðina á 20 mínútna fresti (ef hann er stilltur á virka daga) þannig að ég varð engu nær með því
Ég vil líka lýsa yfir vanþóknun minni á fækkun ferða. Það er bara of lítið að hafa vagna á hálftíma fresti. Það er lýsandi fyrir stjórnun þessa fyrirtækis að lausn ykkar á fækkun farþega yfir sumartímann sé ekki að reyna að koma til móts við borgarbúa heldur að reyna að hrekja trygga farþega ykkar í burt.

Ég get ekki séð aðra skýringu á þessu máli en að hér séu Sjálfsstæðismenn einfaldlega að reyna að eyðileggja Strætó. Er það ekki rétt hjá mér?

Ég er hundfúll.

2 thoughts on “Hundfúll yfir Strætó”

  1. Ég get ekki betur séð en að Strætó ætlist til þess að þú skiptir í S1 í Hamraborg.

    Mér sýnist við fyrstu sýn að breytingar á leiðum sé til batnaðar. Sérstaklega með það í huga að nú virðist eiga að passa upp á að fólk geti skipt um vagna á helstu skiptistöðum, en það var helsti gallinn við fyrri tímatöflur að mikil bið var á skiptistöðum.

    En það er þó gagnrýnivert að kynningin á breytingunum er engin og tíðni ferða er alltof léleg.

Lokað er á athugasemdir.