Gneistaflug á Neistaflug

Á laugardaginn fór ég út á flugvöll til að ná vél til Egilsstaða. Eggert skutlaði mér og síðan beið ég eftir að byrjað yrði að innrita. Þarna voru meðal annars tvær gáfulegar stúlkur sem fóru í röð að afgreiðsluborði merktu Egilsstaðir og urðu hissa að þær gætu ekki innritað sig til Akureyrar þar.

Þar sem flugtakið var órólegt þá leið mér illa alla ferðina. Var í frekar aumu ásigkomulagi þegar ég lenti. Eygló tók á móti mér og við fórum að borða í Söluskála KHB. Það var mjög áhugavert að fylgjast með afgreiðslukonunni reyna að taka pöntun frá útlendingunum sem voru á undan okkur. Hún kunni greinilega enga ensku og reyndi því bara að endurtaka orðin sífellt á íslensku. Þetta endaði þannig að ég túlkaði á milli. Við pöntuðum okkur pizzu og brauðstangir. Það var vond, vond, vond skinka á pizzunni sem eyðilagði hana alveg en brauðstangirnar voru aftur á móti góðar sem redduðu því sem hægt var að redda.

Eftir að hafa keypt nesti lögðum við af stað til Vopnafjarðar yfir Hellisheiðina (eystri fyrir ykkur sem eruð ekki að skilja landafræðina). Það er voðalega vondur vegur, sérstaklega í þoku eins og var núna. Þegar við komumst til Vopnafjarðar þá fórum við beint til afa og ömmu Eyglóar þar sem við fengum smá góðgæti og spjall. Okkur var líka sýnt herbergið okkar. Það var fyrrverandi tankur af mjólkurbíl sem afi Eyglóar er búinn að innrétta.

Næst fórum við í sund enda klukkan þá að verða tólf að miðnætti. Þegar við komum í laugina heyrðum við háreysti og óttuðumst að þar væru fullir unglingar. Sem betur fer voru þetta bara rólegir unglingar að spila einhvern sundbolta. Allt varð rólegt þegar því lauk. Síðan stungu þau af og við gátum verið í friði í sveitasælunni.

Við vöknuðum fyrir hádegi næsta dag eftir að hafa sofið ágætlega. Við borðuðum morgunmat og fórum síðan að hitta pabba Eyglóar. Þar á eftir fórum við rúnt um sveitina, skoðuðum eyðibýlið Guðmundarstaði sem er að hruni komið áður en við fórum aftur “austur”, í þetta sinn yfir Vopnafjarðarheiðina.

Við borðuðum í Shell skálanum á Egilsstöðum. Ágætur matur en það var erfitt að fá afgreiðslu þó lítið væri að gera. Eftir það fórum við að og skoðuðum bæinn sem ég var næstum fluttur til árið 1987. Man reyndar lítið eftir staðnum en ég rifjaði upp ýmsa hluti sem Eygló mundi ekki eftir að ég hefði áður sagt.

Við höfðum slórað nóg og fórum því af stað til Norðfjarðar sem var áfangastaður okkar. Við keyrðum í gegnum Eskifjörð og Reyðarfjörð. Við sáum alveg ótrúlega stórt og ljótt álver á leiðinni. Oddskarðsgöng eru ömurleg. Sérstaklega þegar maður lendir í aðkomufólki sem kann ekki leikreglurnar þarna. Eygló þurfti tvisvar að bakka út. Síðan reyndu þrjú fífl að drepa okkur með framúrakstri þegar við þurftum að hægja ferðina vegna bíls í vegakantinum.

Reynir afi Eyglóar og Steina mamma hennar tóku á móti okkur á Neskaupstað. Við pöntuðum pizzu frá Pizza 67 sem var afar góð, hvítlauksbrauðið þeirra var hins vegar of salt. Við fórum um kvöldið á brekkusöng. Ég er ekki alveg týpan til að vera á svona atburðum en ég játa að mér þótti Gunni en þó sérstaklega Felix fyndnir. Verst var að allt í kring um mig var fólk að reykja. Við slepptum Todmobileballinu enda var hljómsveitin ekkert spes þegar hún mætti til að auglýsa sig. Komum aðeins við hjá Svenna á heimleiðinni en hann fékk síðan útkall (sem stóð víst bara í svona tíu mínútur eða svo).

Á mánudaginn fórum við í sund og sáum verkamenn reisa nýju rennibrautina þarna. Síðan fórum við í kaffi á Franska mel. Síðan tókum við sveitarúnt og fórum að Melhvamm sem er lítið sumarhús sem Reynir afi hennar Eyglóar á þarna. Um kvöldið ákváðum við að borða á Hótel Egilsbúð. Ég fékk vonda lambasteik, hefði frekar átt að fá mér pizzu.

Við lögðum af stað merkilega snemma frá Norðfirði á þriðjudagsmorgun. Við þræddum þessi smápláss á leiðinni suður. Borðuðum ágæta pizzu á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Fengum okkur ís á Höfn. Kíktum snöggt á Jökulsárlón. Við borðuðum á Halldórskaffi á Vík. Það reka tengdaforeldrar hennar Rósu. Ég fékk ostborgara sem var mjög góður þrátt fyrir að vera þykkur (mér finnst þykkir hamborgarar verulega ofmetnir).

Við náðum síðan að komast heim rétt eftir ellefu. Dauðþreytt og aum eftir daginn.