Að elda fyrir 16 manns

Í kvöld eldaði ég mat fyrir 16 manns. Það var reyndar óljóst hve margir kæmu og í raun vissi ég það ekki fyrren maturinn kláraðist. Fjórir Tékkar, þrír Þjóðverjar, þrír Grikkir, tveir Ítalar, einn Slóvaki, ein austurrísk, ein bandarísk og síðan einn Íslendingur. Nokkrir komust ekki sem ætluðu að koma, til dæmis Steinunn og herra sem fóru óvart í öfugan enda bæjarins.

Ég var á þjóðlegu nótunum í kvöld og bauð upp á íslenska sérrétti. Tópas, Brennivín og harðfiskur. Angelica var mjög skotinn í harðfisknum og Marketa hóflega. Almennt var fólk hrifnara af Brennivíni en Tópas. Ég smakkaði sjálfur hið fyrrnefnda í fyrsta skipti og þótti það ógeðslega vont. Tópas er hins vegar gott og ég fékk mér smá af því.

Þegar á leið þá var mér gefið glas af Ouzo, sem ég held að sé skrifað svona, og þótti bara gott. Anísbragðið hitti í mark. Mér var líka gefið Raki sem mér fannst minna á terpentínu og þurfti að fá mér smá Tópas til að drepa bragðið.

Kvöldið byrjaði ekki vel, ég náði ekki Antoniu og þurfti því að undirbúa matinn hérna, skera kjúklinginn og svona. Bar síðan allt draslið þvert yfir bæjinn. Þegar ég var kominn hálfa leið sá ég skilaboð frá Antoniu. Síminn hennar hafði verið batteríslaus. Ég hafði hins vegar einhvern veginn náð að senda henni tóm sms á leiðinni þegar höndin mín rakst í símann minn. Frekar asnalegt. En það gekk allt vel þegar ég loksins kom en þetta var þung byrði.

Ég finn aðeins fyrir áfenginu núna. Grunar að ég hafi aldrei verið nær því að vera drukkinn en þetta er í raun ekkert og ég held að ég leggi þetta ekki í vana minn. Þetta var spes kvöld.

0 thoughts on “Að elda fyrir 16 manns”

Leave a Reply