Carlos

Eitt sem ég held ég hafi ekki minnst á varðandi Cork er að hér er töluvert af betlurum. Ég íhugaði í töluverðan tíma hvort ég ætti að gefa þeim einhvern pening. Síðan var það einhvern tímann sem ég var að angra mig á öllu klinkinu mínu að ég áttaði mig á að það væri nú til auðveld lausn á þessu. Ef ég er svo ríkur að peningarnir pirra mig þá get ég bara losað mig við þá.

Ég byrjaði að gefa betlurum centin mín (yfirleitt hirði ég þó hálfu evrurnar). Ekki alltaf en þó reglulega. Það hefur almennt verið handahófskennt hverjum ég gef en þó er augljóst að þeir sem eru hérna í nágrenninu sem fá oftar. Sá sem ég hef oftast gefið, og það er ekkert rosalega oft, er hérna á MacCurtain stræti. Ég giska að hann sé um fertugt. Hann er mjög þakklátur. Mig grunar að hann fái ekkert sérstaklega mikið enda er hann ekki vel staðsettur. Þeir fá væntanlega mest sem eru á brúnni við enda Patreksstrætis. Þeir hafa reyndar horfið þegar líður á haustið.

Undanfarið hefur þessi kunningi minn ekki verið á sínum stað. Núna á þriðjudag var einhver annar þar þegar ég ætlaði að gefa honum smá. Í dag hins vegar rakst ég á hann niður við enda Cornmarket strætis. Hann fór að tala við mig og ég skyldi voðalega lítið þar sem hann talar aðallega spænsku. Ég náði samt að skilja að hann var að segja að barnið hans væri á spítala og að hann vildi gefa því kók eða þá að hann vildi hugsanlega sjálfur fá kók. Ég er ekki viss. Ég ákvað að gefa honum klinkið mitt sem var þó ekki nema rúm evra, kannski ein og hálf.

Kannski var þetta kjaftæði. Kannski á hann ekkert barn. Ég veit ekki. Mér finnst reyndar ólíklegt að maður myndi ljúga einhverju svona og síðan ljúka því á að biðja um peninga fyrir kók. En það skiptir ekki öllu máli. Sama hver baksagan er þá held ég að hann eigi ekki mikla peninga. Ef honum langaði bara sjálfum í kók þá vona ég að hann hafi notið þess. Það hefur þá allavega verið smá ánægja í erfiðu lífi.

Hann var líka að vanda mjög þakklátur. Hann tók líka upp á því að kynna sig fyrir mér í fyrsta skipti. Hann heitir Carlos. Ég heilsaði honum og sagði að ég héti Óli sem hann endurtók. Spænskumælandi fólk á ekki í miklum vandræðum með að bera fram nafnið mitt.

Mér líkar einhvern veginn vel við Carlos þó við tölum ekki sama tungumál. Hann virðist vera ágætisnáungi. Ég hef látið mér detta í hug að fá Rapha eða Alejandro með mér til að túlka á milli okkar en ég efast um að ég geri það. Ég mun væntanlega bara heilsa honum þegar ég geng framhjá, gefa honum klink þegar ég er með það. Síðan hverf ég á braut eftir mánuð og sé hann væntanlega aldrei aftur. Hvað ætli hann verði lengi að gleyma mér? Hvað ætli ég muni lengi eftir honum?
Mig langar næstum að eyða þessari færslu af því að mig grunar að einhverjir haldi að ég sé að skrifa þetta til að setja mig upp sem eitthvert voðalegt góðmenni. Það er alls ekki málið og mér finnst ég ekki vera neitt sérstaklega góður þó ég gefi þessum manni smápeninga og komi fram við hann af virðingu. Þetta eru í raun engar fórnir af minni hálfu. Mér finnst þetta bara áhugaverð lítil saga úr lífi mínu. Ég vil allavega muna eftir honum Carlos.