Lokun torrent.is

Mig grunar að bandvíddin til Íslands verði betur nýtt eftir að torrent.is hefur verið lokað. Enginn hefur sagt það en á vissan hátt var mjög þægilegt að hafa þetta innanlands því þá var fólk ekki að nota þá takmörkuðu bandvídd sem Íslendingar hafa til þess að hlaða niður þáttum og kvikmyndum. Ekki það að ég sé að verja þetta, ég er bara að benda á praktísku hliðina.

Ekki það að innlend dreifing sé úr sögunni, ekki frekar en eftir DC++ málið. Ég giska að upp rísi vefur sem verður hýstur erlendis en þó með sömu takmörkunum og torrent.is um að notendurnir séu á Íslandi. Það skiptir nefnilega minnstu máli hvaðan torrentskránum sjálfum er dreift þar sem þær eru agnarsmáar.

Eina raunverulega leiðin til að minnka ólöglega dreifingu er að vera með almennilega löglega dreifingu. Tími þess að fólk nenni að láta sjónvarpsdagskránna stjórna lífi sínu er að líða undir lok.