Ég kyssi tímaglasið

Jæja, kveðjudagur. Ég rölti aðeins um miðbæinn í dag en það var eiginlega of mikið að gera alls staðar til að geta nokkuð raunverulega skoðað. Uppúr fjögur rölti ég að heiman upp þessa löngu brekku sem liggur heim til Kristynu. Það tekur 45 mínútur að ganga þetta. Ég kom tvær mínútur í fimm og þá var Kristyna ekki komin heim en var bara rétt á eftir mér. Ég hjálpaði aðeins við undirbúninginn og síðan bættist fólk hægt og rólega við. Það var enginn þarna úr þessum hóp sem ekki mætti. Reyndar komu líka nokkrir Tékkar sem ég hef ekki mikið verið í kringum en það var í lagi. Ida hin norska var aðeins á svæðinu.

Við fengum einhvers konar tékkneskt snitzel á milli þess sem við teiknuðum jólatré á vegginn og kvöddumst. Ég áritaði plaggöt fyrir Marketu, Kamil og Kristynu en Antonia gekk skrefinu lengra og var með írskan fána til að skrifa á. Vona að Írarnir séu ekki jafn erfiðir og við í fánalögunum. Á enninu mínu stendur Iceland Rules á hvolfi. Kristyna skreytti mig.

Uppúr miðnætti röltum við heim. Fólk týndist úr hópnum á leiðinni, kvaddi Angelicu og Marianne. Fabian var sauðdrukkinn og ég þurfti tvisvar að rífa hann af götunni til að hann yrði ekki fyrir bíl. Fólkið endaði inn á einhverjum klúbbi sem ég var ekki að fíla þannig að ég kvaddi alla nema Kamil sem var álíka óspenntur fyrir honum og ég.

Við settumst á þrep dómshússins og spjölluðum aðeins. Síðan kom Kristyna út og spjallaði líka við okkur. Kvöddumst síðan almennilega og þetta var voðalega notaleg stund. Ég á nokkur heimboð í Tékklandi, og reyndar á fleiri stöðum.

Gott að fá að kveðja Kristynu almennilega. Eftir að hafa eytt fyrsta kynningardeginum með henni þá sannfærðist ég um að það yrði nú allt í lagi með mig þarna og ég yrði ekki einmana og aumkunarverður. Hún hefur því ákveðinn stað í hjarta mínu fyrir og á líka heimboð á Íslandi, eins og reyndar fleiri. Það vantaði ekki mikið upp á að tár kæmu fram þegar við kvöddumst.

Núna er ég í raun búinn að kveðja og á bara eftir að ganga frá öllu hérna, horfi á sandinn renna út.