Afmæli Eyglóar

Til að halda upp á afmælið hennar Eyglóar gerðum við ýmislegt smátt og stórt. Eftir að við k0mum okkur á fætur fórum við niður í Bakarameistarann í Mjódd. Maturinn góður að vanda en þjónustan frekar fjarri því að vera fullkomin. Ekki slæm beinlínis samt. Meira eins og enginn þjálfi afgreiðslustúlkurnar.

Ég tók síðan síðdegið í duglegheit og skrifaði alveg stórskemmtilegan kafla í ritgerðinni minni. Skruppum síðan til Stebba og Steinunnar og náðum í pakka sem Eygló átti þar.  Fórum næst út í Garðabæ, eða Ikeahverfið, og kíktum í Hooby Room. Það var skemmtileg verslun. Mig grunar samt að það gæti komið þeim illa að þeir hafa of mikið af dýrum hlutum en ekki nóg af ódýrari vörum. En ég gæti alveg eytt pening þarna.

Kvöldmat borðuðum við í Síam í Hafnarfirði. Maturinn var góður og ódýr, við kláruðum ekki einu sinni gjafakortið. Ég keypti mér nauakjöt í rauðu karríi sem flokkaðist sem meðalsterkt. Ég er feginn að ég prufaði ekki mjög sterku réttina þarna.

Við fórum næst eftir ábendingu Sigga og fengum okkur McFlurry í eftirrétt (gott til að kæla sig). Ekki stóð flörríið undir væntingum en allavega náðum við að keyra aukahring í kringum McDonalds þarna á Smáratorgi af því við kunnum ekki á kerfið. Sjálfur hef ég ekki verslað við þetta fyrirtæki hér á landi síðan ég fékk versta hamborgara sem ég hef smakkað hér á landi fyrir nokkrum árum í Austurstræti.

Litum síðan inn til Rósu og spjölluðum við hana og Davíð áður en við fórum heim og horfðum á afmælisgjöf síðasta árs, My So-called Life.