Almenningssamgöngur

Ef við reiknum inn kostnað við gatnakerfið í Reykjavík, bensínkostnað (og hækkandi verð til framtíðar), bílatryggingar, bílakaup og bílaviðhald þá grunar mig að við yrðum fljót að komast að þeirri niðurstöðu að neðanjarðarlestir séu málið, sérstaklega ef við prufum að horfa til hundrað ára. Fyrstu 10-30 árin allavega þyrfti náttúrulega að skipuleggja þetta þannig að Strætó væri mikilvæg stoð fyrir lestarkerfið.

En að sjálfssögðu er ekki vilji hjá borgaryfirvöldum að horfa langt fram í tímann. Þegar Framsókn og Sjálfsstæðisflokkur myrtu nýja strætókerfið þá var það af því að til skamms tíma var það ekki að skila “hagnaði” en ekki var hugsað til þess að uppbygging almenningssamgangna væri fjárfesting til framtíðar. Það er líka ekki öllum þeim sem styrkja þessa flokka í hag að gott strætókerfi sé til staðar. Það er ekki olíufélögunum í hag, það er ekki tryggingafélögunum í hag, það er ekki bílasölum í hag. Það er hægt að bæta mörgum aðilum á þennan lista. Það er aðallega almenningur sem græðir á góðu strætókerfi en hann skiptir engu máli.

Það væri gott ef við gætum farið tíu ár aftur í tímann og fengið að vita að bensínverð myndi tvöfaldast á áratug og leyft fólki að taka upplýsta ákvörðun um hvernig uppbyggingu almenningssamgagna yrði háttað. Værum við kannski komin með neðanjarðarlest úr Mossfellsbæ yfir í Seltjarnarnes og aðra línu frá Hafnarfirði í miðborgina? Væri verið að vinna að tengja Breiðholtið við þessar línur?
Þetta eru bara smá draumórar sem maður leyfir sér og það sem skiptir máli í dag er að spyrja hvar við verðum og hvar við viljum vera eftir tíu ár, tuttugu ár og fimmtíu ár.