Pizza með sveppum og piparosti

Í gær var hittingur bókasafns- og upplýsingafræðinörda heima hjá Halla. Spiluðum Dilbert spilið og borðuðum pizzur.

Við Eygló sáum um að panta og ná í pizzurnar. Eftir að hafa skoðað tilboð hér og þar í veikri von um að finna sambærilegt verð við Dominos sáum við að Pizzahöllinn var með 40% afslátt af sóttum pizzum. Við pöntuðum þrjár pizzur og hvítlauksbrauð með góðum fyrirvara. Á leiðinni út á bílaplan sáum við mann koma út úr öðrum stigagangi með pizzukassa. Við sáum hann aftur niðrí Mjódd þegar hann kom inn í Pizzahöllina. Hann var að skila pizzu með röngum áleggjum. Á staðnum var líka frekar pirrað par að bíða eftir pizzum sem hafði greinilega verið klúðrað. Starfsmönnum til varnar þá var tölvukerfið þeirra í rugli.

Það fyrsta sem við gerðum þegar við fengum pizzurnar í hendur var að kíkja hvort allt væri rétt. Ein var svolítið undarleg. Hún var bara með sveppum og piparost. Mjög spes blanda. Við fengum nýja pizzu og fengum að hirða þá undarlegu sem var víst alveg ágæt. Pizzurnar voru líka bara nokkuð góðar og við munum væntanlega snúa okkur þarna niðureftir í framtíðinni.