London beibí eða calling eða eitthvað

Ég hoppaði strax á fætur í morgun og kom mér fljótt út með allt draslið. Hitti Júlíönu strax og hringdi í taxa. Valdimar kom líka á góðum tíma. Við ákváðum að gefa okkur ekki rúman tíma að komast í gegnum flugvöllinn í Derry en þó fengum við of mikinn. Í tjékkininu gekk allt vel hjá mér, Júlíana fékk gefins forgangspassa en Valdimar lenti í veseni tengt því að hann hefur ekki áður kynnst yndislegu veröld RyanAir. Honum fannst sumsé skrýtið að þeir gerðu ekki ráð fyrir í sjálfgildunum að hann tæki með sér tösku.

Í fluginu sátum við aftur við neyðarútganginn og leið vel þar. Lendingin var hörð og ef þetta hefði verið eitthvað annað flugfélag þá hefði ég orðið organdi hræddur. En ég er þessum lendingum. Við borðuðum saman á Pontis áður en Valdimar flaug heim. Við Júlíana komum okkur inn til London og sáum þá að hótelið okkar var ekki á þeim stað sem það átti að vera. Sem betur fer komumst við samt heil á höldnu á réttan rangan stað.

Á leiðinni í Undirgrundina fundum við stað sem auglýsti að hann biði upp á illfáanlega leikhúsmiða. Við fórum þangað og spurðumst fyrir. Afgreiðslukonan vildi eiginlega ekki selja okkur miða á Les Mis en mælti með We will rock you. Við sættumst öll að lokum á Spamalot. Þetta var bæði vondur og góður díll. Við gátum þarna losnað undan því að eltast við miða en það kom í ljós að það var verðið var tvöfalt á við það sem gerist á Leicester Sq.

En þarna skildumst við Júlíana að. Ég fór í nördabúðir og keypti eitthvað ónauðsynlegt. Síðan ráfaði ég bara um. Horfði á töframann í hálftíma, borðaði fyllta kartöflu og sat síðan og horfði á böskara. Allt þetta síðastnefnda var í nágrenni Covent Garden.

Ég ætlaði að hafa góðan tíma áður en ég þyrfti að fara í leikhús svo ég gæti farið á netið á hótelinu. Það varð ekki. Ég lenti í voðalegum vandræðum á Covent Garden lestarstöðinni. Lestinni seinkaði heilmikið og ég komst ekki í þá fyrstu sem mætti. Ég sá að ég gat rétt troðið mér inn í þá næstu en fjölmargir gáfulingar ákváðu að troða sér fyrir aftan mig. Ótrúleg þrengsli. Þegar við stoppuðum á næstu stöð þar sem ég ætlaði út þá voru gáfulingarnir fyrir aftan mig ekkert á því að hleypa fólki út. Þetta endaði með því að eitthvað brast og þeir hrundu út og ég í kjölfarið. Þetta var svo mikill kraftur að ég keyrði næstum grey konu upp við vegg.

Þegar kom á hótelið kom í ljós að leikhúsið byrjaði hálftíma seinna en ég hélt þannig að ég fór aðeins á netið en þurrkaði líka svitann undan höndunum mínum og skipti um bol í annað sinn um daginn. Þegar ég kom aftur niður var Júlíana á barnum. Hún var búinn að heilla barþjóninn svo að hann gaf okkur flögur til að nærast á fyrir leikhúsferðina.

Það gekk vel að komast í leikhúsið en þar áttuðum við okkur á að við vorum alveg á þriðju svölum. Gott fuglsaugaútsýni yfir sviðið en ekkert pláss fyrir fætur. Sem betur fer voru engir við hliðina á okkur þannig að ég sat eiginlega á hlið. Það olli því reyndar að þegar ég leit til hliðar sem var þá næsta bekk fyrir aftan mig þá hélt stúlkan þar að ég væri að kíkja upp undir hana. Hún sagði raunar ekki neitt en greip jakka og setti yfir hnéin. Ég veit ekki hvað ég hefði átt að sjá í myrkrinu þarna. Leikritið var ágætt en ekki frábært.

Eftir á leituðum við lengi að hraðbanka og enduðum síðan á ítölskum veitingastað. Eftir að ég hafði pantað áttaði ég mig á því að þetta var staður sem við Eygló fórum á í febrúar. Þar lentum við í ótrúlegum þrýstingi að gefa mikið þjórfé þó það hafi verið lagt á þjónustugjald. Við fengum okkur þríréttað og skipulögðum síðan undankomu vel til að losna undan aukaþjórfésþrýstingi sem var mjög greinilegur á næstu borðum. Það virkaði. Síðan komum við okkur bara heim. Í undirgrundinni sáum við mann taka góða útgáfu af Personal Jesus.

Núna er ég bara hreinn í herbergi með netsamband og blogga því í beinni. Herbergið sjálft er fínt en það er mjög spes að maður þarf að fara upp lítinn stiga til að fara upp í rúma. Það er mjög höfðinglegt að sjá sko. Jæja, svefninn kallar en laðar ekki þar sem slíkt bíður upp á misskilning.