Ég er kominn heim. Náði að sofa til hádegis. Líkami minn er afskaplega aumur og ég er með smá höfuðverk. Allt eftirköst ferðalagsins, þeytings og þvælings. Gott að vera heima.
Í gær vaknaði ég akkúrat nógu seint til að missa ekki af morgunmatnum. Hann var reyndar óspennandi. Rúnstykki, ostur og skinka var það besta sem var í boði. Reyndar var osturinn bara viðbjóðslegur en sem betur fer var líka Babybel þarna sem ég gat notað í staðinn. Ég kláraði alla pakkningu um ellefu og tjékkaði mig út. Síðan fórum við Júlíana niður á Covent Garden og borðuðum smá til að fylla upp í.
Dagurinn fór annars bara í rölt. Við fylgdumst með böskara sem hafði þann undarlega sið að móðga áhorfendur sína. Frakkinn sem sat við hlið mér spurði mig með táknmáli hvort hann ætti að gefa eitt pund í töskuna. Ég gat þumal upp en hann skyldi það þannig að hann ætti að gefa meira. Eftir það horfðum við á konu sem var að velja sér eiginmann úr áhorfendaskaranum og lét þá vinna ýmsar þrautir. Mjög fyndið.
Við kíktum í nokkrar verslanir. Í einni mátaði ég hatt. Sölumaður kom og sagði mér að hann kostaði 35 pund. Ég ákvað að leika mér aðeins og talaði við Júlíönu á íslensku. Sölumaðurinn hafði kallað hana konuna mína þannig að ég lét eins og ég væri að rökræða við hana um hattinn og að hún væri neikvæð. Hann bauð fyrst 30 og þegar ég gekk út fór hann niður í 20 pund sem var verðið sem ég sætti mig við. Við Júlíana keyptum okkur líka töskur rétt áður en við fórum á hótelið, hjólin á hennar höfðu brotnað af og mín var bara léleg. Þar náði ég bara að koma verðinu niður um eitt pund, tel að ég hefði getað gert betur ef ég hefði haft rýmri tíma.
Eftir að hafa umpakkað í nýju töskurnar og gefið hótelinu þær gömlu fórum við að borða á persneskum stað. Þar var þjónustan hæg og maturinn ekkert rosalega góður. Við hoppuðum í undirgrundina og þegar kom að Liverpool Str. gáfum við túristum sem biðu eftir að komast í miðasjálfsalann dagskortin okkar. Það er gaman að vinna handahófskennd góðverk.
Það gekk vel að komast á Stansted en það var greinilega eitthvað í gangi með öryggisgæsluna. Það var pípað á mig þó ég hefði engan málm á mér og síðan þuklað á mér. Bakpokinn minn var skoðaður og fartölvulásinn sem aldri hefur vakið áhuga þar áður (þó hann hafi verið þar allavega 3 áður) hafði greinilega þótt tortryggilegur. Þegar inn í fríhöfnina kom sáust síðan löggur með byssur og ónotin fóru um mig. Við reiknuðum því miður skakkt með mat. Við hefðum átt að borða aðeins fyrr um daginn en taka almennilega máltíð á Stansted til að verða ekki svöng í loftinu. Pontis hefði verið betri en perskneski staðurinn.
Aníhú. Flugið heim var ekkert rosalega spennó né óþægilegt. Við gleymdum því miður að taka mynd af okkur með Ambrose hjá töskufæriböndunum. Ég keypti nær ekkert í fríhöfninni og var ekki tékkaður í tollinum. Raunar hefur það bara einu sinni gerst að tollverðir hafi sýnt mér áhuga og það var þegar þeir kíktu í fríhafnarpokana mína, Eggerts og Eyglóar á leið heim frá Gotlandi til að tékka tollinn okkar. Ég hef greinilega ekki smyglaralúkkið.
Eygló náði í okkur og skutlaði Júlíönu heim áður en við fengum okkur létan mat á BSÍ, hún Subway en ég burrito frá stað mannsins sem tollararnir elska að skoða. Núna er gott að vera heima.