Skondið kynlífsvandamál

Í gær var ég að lesa á Wikipediu um Loðvík XVI. Hann og kona hans María Antoinette áttu í vandræðum með að geta barn. Það var mikið pískrað um hvað vandamálið væri en það leystist ekki fyrren bróðir drottningarinnar ákvað að fara að tala berort við þau um vandamálið. Hann skrifaði um þetta samtal í bréfi til bróður síns sem hefur varðveist þó konungshjónin hefðu væntanlega kosið að það hefði ekki gert það. En ég hló upphátt þegar ég las þennan kafla úr bréfinu:

“he introduces the member, stays there without moving for about two minutes, withdraws without ejaculating but still erect, and bids goodnight…when he is inside and going at it…[ejaculation] never happens.”

Bróðirinn hefur væntanlega útskýrt fyrir þeim hvað upp á vantaði því það leið ekki mjög langur tími þar til að drottningin varð ólétt. Hugsanlega hefur þetta verið í átt við hafnfirska kynfræðslubæklinginn sem ég las eitt sinn um:

1. INN
2. ÚT
3. Endurtakist eftir þörfum.

Líklega hafa þau þó þurft eitthvað nákvæmara.

Það sem gerir þetta þó sérstaklega áhugavert er að öll mannkynssagan hefði hugsanlega þróast öðruvísi ef konungshjónin hefðu fengið þessa kynfræðslu fyrr. Þrátt fyrir allar hræringar og hugsjónir sem áttu sér stað á þessum tíma í Frakklandi var ástæðan fyrir byltingunni líka nátengd óvinsældum drottningarinnar. Ef drottningin hefði getið erfingja fyrr þá hefði hún væntanlega orðið vinsælli meðal almennings. Um leið hefði hún hugsanlega verið ólíklegri til að dreifa huganum með því að sóa peningum eins og hún gerði.

Við sem teljum vestræna menningu og mannréttindahefð vera arfleifð þeirra gilda sem franska byltingin stóð fyrir getum því verið þakklát fyrir það hve seint Loðvík lærði að endurtaka eftir þörfum.