Myrki riddarinn snýr aftur

Dark Knight Returns er ekki næsta Batman mynd heldur gömul Batman teiknimyndasaga. Ég er ekki neitt rosalega mikill teiknimyndasöguaðdáandi en Dúddi frændi lánaði mér þessa fyrir margt löngu síðan og hún heillaði mig. Höfundurinn var Frank Miller sem gerði líka Sin City og 300.

Dark Knight Returns, sem kom út 1986, breytti töluvert miklu með Batman og er líklega helsta ástæðan fyrir því að það lifnaði aftur yfir honum. Flestir muna væntanlega eftir ýktu sjónvarpsþáttunum sem voru gerðir á sjöunda áratugnum en sýndir mikið seinna á RÚV. Batman sem kemur fram í útgáfu Frank Miller er allt öðruvísi. Hann er mannlegur, hann er kvalinn og hann er ekki algjört góðmenni.

Það var þessi Batman sem hafði mest áhrif á það hvernig Batman sem Tim Burton leikstýrði varð. Nýjasta útgáfan af Batman er síðan bara áframhald af þessari þróun og það að nota Dark Knight sem titil á nýjustu myndinni er augljóslega til heiðurs þeim áhrifum.

Ég var að komast að því að það væri til Absolute útgáfa af Dark Knight sögunum. Það væri ég til í að eiga. Ég á svoleiðis útgáfu af Sandman (þrjár útkomnar, ein forpöntuð á Amazon) og það eru mjög glæsilegar bækur þannig að Absolute Dark Knight heillar töluvert…