Á þriðjudaginn fékk ég The Cosmos Rocks í pósti. Ég renndi honum einu sinni í gegn og hef ekki hlustað síðan þá. Núna er hann kominn aftur í.
Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er þetta plata með Brian May gítarleikar Queen, Roger Taylor trommari Queen og Paul Rodgers úr Bad Company/Free. Saman kalla þeir sig Queen + Paul Rodgers. Mér finnst það reyndar vond hugmynd út af fyrir sig en ég læt það ekki angra mig jafn mikið og þeir sem hafa herjað á Queentengd spjallborð á netinu í rúm þrjú ár og talað um það hvað þetta sé nú hræðilegt.
Það er voðalega erfitt að hlusta á svona með opnum huga. Það vantar bæði John og Freddie. Mín afstaða er sú að maður skyldi ekki líkja þessu við Queen heldur þau sólóverkefni sem Roger og Brian hafa komið með. Og ég held að platan sé bara mjög góð í þeim samanburði. Það koma svona stundir þar sem maður hugsar að þetta sé nú næstum „Queen Worthy“. Augljóslega kemur Paul með sínar áherslur og það er ekkert endilega slæmt. Hann er enginn Freddie eftirherma og það er ekkert nema gott.
Gagnrýnendur eru hins vegar að slátra plötunni hægri vinstri. Ég myndi segja að það sé lítið að marka þá. Tónlistarpressan hataði Queen og Freddie í gegnum tíðina og nú hatast þeir við þessa plötu af því að hún er ekki það sem Queen var einu sinni. Þetta er svona plata sem gagnrýnendur hafa gaman af að rakka niður og það er miklu auðveldara en að hlusta með opnum huga.
Ég held mér eigi ekki eftir að þykja neitt leiðinlegt að heyra eitthvað af þessum lögum á tónleikunum.
Og ég er þegar farinn að syngja með.
Svolítið ósanngjarnt að kalla þetta Queen + Paul Rodgers, eins og þú bendir á þá er bara helmingur upprunalegu Queen þarna. Eins finnst mér loðin „endurkoma“ Led Zeppelin, sem þó voru með son Bonzo á trommunum – en þetta er bara ekki það sama, er það? Ættu frekar að taka upp annað nafn, eins og þegar Rage Against the Machine fengu nýjan söngvara og kölluðu sig Audioslave. En Queen + Paul Rodgers hlýtur einkum að höfða til Queen nöttara, er það ekki?
Eins og ég segi þá er ég löngu hættur að nenna að rökræða þetta með Q + PR. Deacon er sáttur og Freddie hefur ekki hreyft mótmælum.
Ég hef enga hugmynd um til hvers platan höfðar almennt. Grunar að flestir dæmi bara strax og að þessi plata eigi aldrei eftir að fá séns hjá flestum.