Fágæti á öld gnægðarinnar

Það sem netið gerir er að búa til afrit. Ég set upp þessa síðu og lesendur fá afrit af henni í tölvuna sína. Þið eruð ekki að horfa á skjal sem er í tölvu hinum megin á hnettinum, þið eruð að horfa á skjal sem er staðsett í tölvunni ykkar.

Ég hef frá því á síðustu öld verið frekar þögull meðlimur á spjallborði á vef sem heitir Queenzone. Þessi vefur, og spjallborðið, er tileinkaður hljómsveitinni Queen. Á vefnum sjálfum koma fréttir um Queen – margar mjög ómerkilegar. Á spjallborðinu er hins vegar að finna gnægð upplýsinga og þar að auki koma þar reglulega inn sjaldgæfar upptökur. Útgáfufyrirtækin láta þetta vera af því að enginn er að græða neitt á þessari dreifingu (og væntanlega tapa þau engu). Sumt af því eru bara “bootlegs”. Upptökur af tónleikum sem hafa verið gefnar út af sjóræningjaútgáfum eða, í seinni tíð, tónleikaupptökur sem eru fyrst gefnar út á netinu. Mun áhugaverðara er þó þegar safnarar deila stúdíóupptökum af lögum sem hafa jafnvel aldrei verið gefin út.

Þegar verulega sjaldgæf upptaka birtist á Queenzone þá er það yfirleitt endastöðin. Safnarar hafa þá væntanlega flestir sjálfir eignast þessar upptökur og eru tilbúnir að láta pöpulinn fá aðgang. Það gerist þó líka að upptaka birtist fyrr og þá verður upprunalegur eigandi upptökunnar sár. Hann hefði getað notað hana lengur til að skipta við aðra safnara og þannig sjálfur fengið fleiri fágætar upptökur í hendurnar.

Núna áðan var ég lesa í gegnum sárindaþráð. Einhver deildi óútgefnum stúdíóupptökum með hljómsveit sem Roger Taylor trommuleikari Queen var í en fljótt kom gagnrýni. Sá sem deildi upptökunum hafði fengið þær í gegnum það sem mætti helst kalla elítuhóp safnara sem voru að deila milli sín efni undir ákveðnum skilyrðum. Með því að deila þessum upptökum voru skilyrðin brotin.

Fyrir utanaðkomandi er þessi hagfræði ekki endilega mjög skiljanleg. Maður getur spurt af hverju deila ekki bara allir öllu og allir verða glaðir? Enginn vill vera fyrstur til að deila sínu efni (sem þeir hafa oft keypt dýrum dómum) með öllum því þá missa þeir tækifærið til að eignast upptökur frá öðrum í gegnum skipti. Maður getur líkt þessu við einhliða kjarnorkuafvopnun.

Talsmenn elítusafnarana bentu í þessum þræði á að það væri slæmt fyrir alla að traustið hefði verið svikið. Ef þeir deildu ekki fyrst sín á milli myndi mettunin ekki eiga sér stað og við hin myndum ekki fá upptökurnar. Hann líkti þessu við að gefa frá sér Iphone 3 þegar hann fengi Iphone 4. Hann vildi ekki aðrir fengju Iphone – hann vildi bara verða fyrstur til að eiga nýja símann.

Þá er spurt hvort sá sem sveik traust þessa hóps sé Hrói Höttur eða óþokki sem eyðileggur að lokum fyrir öllum (hann segist reyndar sjálfur hafa fengið umrædda upptöku annars staðar frá en enginn trúir honum). Mun þetta verða til þess að við hin fáum ekki aðgang að öllum gimsteinunum sem eiga að vera til? Fáum við ekki bestu mögulegu útgáfu af hinu goðsagnakennda lagi Hangman? Hver veit.

Það sem mér fannst hve áhugaverðast í þræðinum var að fólk sem jafnvel tilheyrði ekki þessum kjarnasafnarahóp var sárt yfir því hve auðvelt væri fyrir fólk að eignast sjaldgæfar upptökur. Það hafði sjálft þurft að leita og berjast til að komast yfir þessar upptökur. Nýir aðdáendur geta strax farið og hlustað á fágætin.

Ég hef reyndar hugsað oft um þessa hlið hinnar stafrænu menningar. Þegar ég varð Queenaðdáandi þá eyddi ég öllum mínum peningum í að safna diskunum og það var nógu erfitt. Ég þurfti að vega og meta hvaða disk ég ætti að kaupa mér næst – til dæmis út frá því hve mörg lög ég hefði aldrei heyrt af hverjum disk. Ég skrifaði hjá mér hvenær ég eignaðist hvaða disk. Rás 2 spilaði nokkrar plötur Queen í heild sinni á laugardagskvöldum og ég tók þær upp (og vandaði mig að búa til “flott” umslög á kassettuhylkin).

Þetta voru bara stúdíóplöturnar. Maður var ekki að redda sér neinu fágæti á Íslandi – hvað þá á mínu litla horni landsins. Barcelona diskur Freddie fékkst í Radionaust og Back to the Light með Brian May reddaðist einhvern veginn. Það var magnað þegar það kom ný diskabúð í miðbænum á Akureyri – sem mig minnir að hafa kallast HP-músík og starfaði ekki lengi – þar sem sólóplata Roger Taylor Happiness? fékkst áður en ég hafði heyrt af því að hún væri komin út. Stórkostlegt.

Sjaldgæfasta eintakið sem ég á í fórum mínum er DVD diskur með tónlistarmyndböndum Queen sem átti að gefa með Pioneer dvd-spilurum en einhver fyrrverandi skólafélagi minn sem vann í Radionaust seldi mér á – það sem hann hefur væntanlega talið okurverð – þrjúþúsund krónur. Ég hef á líka nokkrar ágætar LP-plötur keyptar heima og erlendis. Merkilegust er líka Star Fleet Project með Brian May, Eddie van Halen og fleirum.

Fyrsta byltingin sem fylgdi netinu var ekki sú að ég gæti halað niður tónlist heldur að ég gat keypt tónlist. Ég elti upp og pantaði þá Queentengdu diska sem mig vantaði. Líklega var Ghost of a Smile hápunkturinn. Góð útgáfa af lögunum með hljómsveitinni sem var forveri Queen.

Niðurhalspotturinn varð síðan til og byrjaði að stækka. Þar komu stök lög og stakar tónleikaupptökur sem voru frábærar. Ég áttaði mig reyndar fljótt á að ég hefði ekki mikinn áhuga á tónleikaupptökum almennt. Allavega ekki þeim gæðum sem þessar voru í. Stúdíófágætin voru meira spennandi og ég reyni enn að taka þau inn á sama tíma og ég bölva þeim sem ráða yfir útgáfumálum Queen að hafa ekki nú þegar gefið út fágætasafn (það var reyndar gefinn út góður Freddiepakki á síðustu öld – hringitónninn minn er óklárað lag sem fylgdi þar með).

Ég hugsa stundum um hvernig það væri að verða Queenaðdáandi í dag. Maður gæti heyrt nokkur lög, hrifist með, og tekið inn heildarsafnið í einum pakka. Fágætin finnast síðan í kjölfarið. Merkilegt nokk þá öfunda ég ekki þá sem geta farið þessa leið. Ég efast nefnilega um að þetta sé nærri því jafn skemmtileg leið til að eignast þetta allt í einu og að eltast við þetta í mörg ár. Ég held líka að maður taki þá ekki jafn góðan tíma í að kynnast hverri plötu fyrir sig.

Kannski ætti ég að öfunda elítusafnarana. Ég get trúað því að leitin að nýju fágæti sé stórskemmtileg. Ég held líka að ég yrði mögulega alveg jafn “eigingjarn” og þeir. Ég er hins vegar sáttur við að fá einstaka gullmola í hendurnar og leyfa þeim að sjá um þetta.

Um daginn tók ég inn lélegar videoupptökur frá tónleikunum sem ég fór á í Brixton 2005 og tónleikunum sem við Eygló fórum á 2008 í Glasgow. Það var líklega skemmtilegra en flest fágætið sem hægt er að redda sér en persónulegur minjagripur.