Undarleg höfundaréttarklausa

Nú hafa Rannsóknir í félagsvísindum tvisvar verið gefnar út rafrænt og er öllum aðgengileg í gegnum Skemmuna. Þetta eru greinasöfn frá árlegri ráðstefnu sem er haldin í Háskólanum. Í tengslum við pælingar og skrif mín um opin aðgang kíkti ég aðeins á þetta og rakst á einhverja undarlegustu höfundaréttarklausu sem ég hef séð:

Greinar í bók þessari má afrita í einu eintaki til einkanota, en efni þeirra er verndað af ákvæðum höfundalaga og með öllum réttindum áskildum

Ef ég tek óvart inn tvö eintök af grein úr bókinni er ég búinn að brjóta þessa skilmála. Ef ég á tvær tölvur og vil hafa greinina í þeim báðum þá er ég búinn að brjóta þessa skilmála. Ég bara get ekki skilið þankaganginn á bak við þetta. Hvernig getur það mögulega verið verra fyrir nokkurn að einhver eigi fleiri en eitt eintak af þessu riti? Hverju á þessa klausa að skila. Hver sem er má taka inn þessa bók en bara eitt eintak.

Hitt sem ég skil ekki eru þessi “einkanot”. Ég athugaði hvort Páll Sigurðsson skilgreindi einkanot í bók sinni Höfundaréttur en sá ekkert slíkt. Minn skilningur á hugtakinu er einfaldlega sá að maður megi nota bókina ef það er ekki í atvinnu- eða gróðaskyni. Er þá ekki verið að segja að til dæmis megi háskólakennarar ekki nota greinarnar í kennslu eða rannsóknum? Sálfræðingar og félagsráðgjafar mega þá væntanlega ekki heldur nýta efnið í starfi sínu.

Ég hlýt að gera ráð fyrir að greinarnar í Rannsóknum í félagsvísindum séu fyrst og fremst ætlaðar sem yndislestur þeim sem vilja lesa til dæmis um jaðraða félagshóp, hlutverk náms í framtíðarsýn fanga og upptöku ISO staðla án þess að hafa nokkur praktísk not fyrir þá þekkingu.

Með þessa höfundaréttarklausu á ég erfitt með að telja Rannsóknir í félagsvísindum með í hópi fræðirita í opnum aðgangi.