Ég man skýrt eftir því að þegar ég fór út í búð þegar ég var lítill gerði ég alltaf ráð fyrir að verðið hefði hækkað dálítið síðan síðast. Þó ég hafi örugglega heyrt fólk tala um verðbólgu í kringum mig þá efast ég um að ég hafi tengt þetta saman á þeim tíma. Ég hélt bara að það væri lögmál að hlutirnir hækkuðu svona og hugsaði ekkert út í það. Maður er í sama gír núna.
Í mánudaginn keyptu við Eygló þráðlausa Electrolux ryksugu. Hún virðist svínvirka. Þegar við keyptum hana þá leið okkur eins og við værum að gera góðan díl. Peningarnir hrörna ekki á bankabókinni ef þeim er eytt strax og ryksugan hækkar án efa fljótlega í verði, ef hún hefur ekki þegar gert það.
Tilfinningin er semsagt núna sú að allt sé voða nítján hundruð áttatíu og eitthvað. Það er nógu slæmt en staðan bendir til að bólan spryngi fljótt og bráðlega verði allt voða nítján hundruð nítíu og tvö, þrjú, fjögur eða fimm. Það væri skelfilegt. En kannski væri það samt bara ágætt miðað við hvernig það yrði ef það væri allt eins og nítján hundruð þrjátíu og eitthvað.