Aumt yfirklór Moggans

Þetta er merkileg grein. Þarna er því haldið fram að ástæðan fyrir því að lokað var fyrir blogg við tvær fréttir á VefMogganum tengist í engu því að um var að ræða menn með rétt tengsl í Sjálfstæðisflokknum. Ástæðan á að vera sú að bloggin við fréttirnar hafi verið sérstaklega rætin. Svo var einfaldlega ekki. Vissulega var að finna þarna ýmislegt rætið (hér má finna þau) en þetta er nákvæmlega eins og það sem Mogginn hefur hingað til leyft (og ég raunar gagnrýnt). Það er frekar ótrúverðug tilviljun að Mogginn hafi loks ákveðið að taka á þessum málum þegar um var að ræða rétt tengda Sjálfstæðismenn.

Og það stendur víst í leiðara að Mogginn vilji vera opinn umræðuvettvangur. Það er brandari. Fyrir sex vikum sendi ég inn svargrein í Moggann. Sú grein er ekki rætin, allavega ekki miðað við þá grein sem ég er að svara, en hefur þó ekki birst. Ég tek fram að ég valdi ekki Morgunblaðið sem umræðuvettvang heldur er ég einfaldlega að svara fyrir mig vegna greina sem birtust þar.

Hvers vegna hefur greinin mín ekki birst? Spyrjið Moggaritstjórann.