Klæðist lögreglan appelsínugulu?

Ég geri ráð fyrir að fara á mótmæli á morgun. Ég er ekki sáttur, ekki við ríkisstjórnina sem situr og ekki við lögregluna. Ég er ekki heldur sáttur við þá sem væla yfir ofbeldi gegn lögreglunni en þegja yfir ofbeldi lögreglunnar. Að sjálfssögðu er ofbeldið gegn lögreglunni slæmt en að setja þetta upp svona einhliða er hreint út sagt ömurlegt.

Ég ætla ekki að vera í appelsínugulu. Ég hef hingað til ekki þurft að auglýsa að ég sé friðsamur mótmælandi og ætla ekki að byrja á því núna. Ég hef alltaf verið friðsamur mótmælandi og ég var það líka þegar lögreglan réðst á mig. Það hefur enga raunverulega merkingu að merkja sig einhverjum lit. Það eru aðgerðir manns sem skilgreina mann.