Heyrnarlaus þjóðfræðingur

Í dag útskrifast fyrsti íslenski heyrnarlausi þjóðfræðingurinn. Ég veit ekki með Evrópu en það er víst til heyrnarlaus bandarískur þjóðfræðingur. En þetta er gríðarlegt afrek. Þjóðfræði er oft skilgreind út frá því að varða munnlega þætti menningarinnar. Það að vera heyrnarlaus gerir slíkt frekar erfitt.

Þjóðfræði er líka kjaftafag. Ég á eftir að sjá hvað BA-verkefnið hennar er um en ég vona að hún hafi skrifað meira um þjóðfræði heyrnarlausra en hún hafði þegar gert verkefni um það, minnir að hún hafi jafnvel verið með það sem efni útvarpsþáttar sem hún sá um.

Það eitt og sér að reyna að komast í gegnum háskólanám án þess að heyra, að þurfa að treysta á túlka er svínslega erfitt, svo erfitt að ég veit að einhverjir hafa gefist upp. Nú hefur múrinn verið rofinn og ég óska Steinunni og nýútskrifaða hjúkrunarfræðingnum til hamingju með það. Nú er bara að vona að fleiri fylgi í kjölfarið, snúi jafnvel aftur í nám.