Frjálshyggja, nýfrjálshyggja og ekki frjálshyggja

Ég hef gaman af því að hæðast að grey frjálshyggjumönnum sem standa nú í nákvæmlega sömu stöðu og kommúnistar hér áður fyrr. Þessi endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokks ákvað að undirstrika brandarann vel og vandlega. Ekki stefnan heldur fólkið.

Ég hafði raunar oft sagt að þeir sem kalla sig frjálshyggjumenn á Íslandi væri nú aumir fulltrúar þeirrar stefnu. Einkaháskólarnir þeirra njóta meiri ríkisstyrkja en ríkisháskólarnir. Um leið eru þeir meira og minna ríkiskirkjumenn. Síðan mæta þeir allir í sömu jakkafötunum hvar sem þeir fara. Það er nú meiri einstaklingshyggjan.

Ég er nefnilega merkilega veikur fyrir ákveðnum formum frjálshyggjunnar. Það eru til einstaka menn sem ég tel hugsjónamenn og hafa raunverulega einhverja dýpt og hugsun. Ég er samt sem áður ósammála þeim og tel að hugmyndafræðin gangi ekki upp.

Helsta vandamálið við frjálshyggjuna, eins og hún hefur verið ástunduð frá upphafi held ég, er að þeir sem segjast aðhyllast hana vilja fyrst og fremst afsökun fyrir tvennu. Að mega samviskulaust græða eins mikla peninga og þeir vilja og vera um leið sama um þá sem minna mega sín.

Það var þessi stefna sem brást. Markaðurinn átti að vera frjáls og fram á síðasta ár var það montprik Sjálfstæðisflokksins hve vel þetta hefði nú allt tekist. Þetta er gjaldþrot einkavæðingarstefnunnar sem miðaði í raun alltaf að því að koma sem mestum eignum í hendurnar á réttu fólki.

Það sem brást var stefnan og fólkið sem framfylgdi henni.