RIRA og CIRA

Ég hef reynt að hafa á hreinu sem flestar af þessum hreyfingum á Írlandi en það er bara til svo fjandi mikið af þeim. Sumar eru bara einfaldlega glæpasamtök sem eru til dæmis í dópsölu.

RIRA, Real Irish Republican Army, klauf sig út úr PIRA (sem er það sem flestir hugsa um sem IRA) eftir friðarsamningana. Þetta er sú hreyfing sem ber ábyrgð á morðunum á hermönnum er sama hreyfing og stóð fyrir sprengjuárásinni í Omagh árið 1998. Sú árás markaði ákveðinn endapunkt á ofbeldinu, þó ekki algerlega enda hafa menn verið drepnir síðan, sem hafði staðið yfir síðan í lok sjöunda áratugarins. Í Derry var mikið um krot þar sem stóð RIRA og oft á mjög áberandi stöðum.

CIRA, Continuity Irish Republican Army, klauf sig frá PIRA árið 1986 ber ábyrgð á morðinu á lögreglumanninum. Þeir fengu á sínum tíma viðurkenningu annars eftirlifandi þingmannsins sem var kosinn fyrir Sinn Fein árið 1921. Sá hafði árið 1969 veitt PIRA, Provisional Irish Republican Army, umboð þegar klofningurinn frá Official IRA átti sér stað.

Þetta er mjög mikilvægt í hugum sumra því að þeir sem voru kosnir 1921 fyrir Sinn Fein, og mynduðu annað írska þingið (Dail), töldust enn hafa umboð þar sem andstæðingar Ensk-írska sáttmálans frá 1921-22 viðurkenna ekki þingkosningar sem hafa farið fram síðan.

Það er væntanlega engin tilviljun að þessar aðgerðir fóru fram með svona stuttu millibili. Ég get ekki sagt að það komi mér á óvart að enn sé fólk sem lítur á ofbeldi sem lausn miðað við það  sem ég sá í Derry og skrifaði um í greininni Fölnuð málning og friðardúfur í tímaritinu Ský. Maður vonar samt að þessi samtök séu ekki nógu öflug til að fylgja þessu eftir.