Mismunandi stig heiðarleika

Hjörtur J. Guðmundsson svarar mér og er ósammála mér um að það geti verið stigsmunur á heiðarleika hjá Baldri Þórhallssyni í umfjöllun um Evrópusambandið. Ég hef því að gamni mínu sett saman tvær setningar:

  • Baldur Þórhallsson telur að það sé of mikið gert úr lýðræðishalla innan Evrópusambandsins og bendir á að alltaf sé reynt að ná samstöðu um mál.
  • Baldur Þórhallsson telur að það sé of mikið gert úr lýðræðishalla innan Evrópusambandsins og bendir á að alltaf sé reynt að ná samstöðu um mál en hann tekur þó fram að hann sé mikill stuðningsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Fyrri setninginþarf ekki að vera neitt minna sönn en sú seinni. Hún getur alveg staðið þarna raunverulegt álit fræðimanns. Hún getur verið alveg fullkomlega heiðarleg. Seinni setningin er þó heiðarlegri af því að hún setur fyrri setninguna í samhengi skoðana mannsins. Flestir fræðimenn hafa skoðanir á því sem þeir eru sérfræðingar um en þeir reyna yfirleitt að setja þetta fram á hlutlægan hátt. Ég held að Baldur hafi reynt það og því er ekkert sem bendir til þess að hægt sé að kalla hann óheiðarlegan.

En ég þakka Hirti fyrir að vísa á gagnrýni mína og opna svona á umræðuna.