Matseðlar og verð

Ég er mjög hrifinn af því þegar veitingastaðir hafa matseðla og verð fyrir utan staðinn sjálfan þannig að maður geti rölt á milli og skoðað. Um leið er ég hrifinn af því að veitingastaðir setji slíkt á heimasíður sínar. Mér líkar við ítarlega matseðla sem segja nákvæmlega hvað er í réttinum.

Við Eygló erum að nýta frelsið og förum reglulega út að borða og í bíó. Á þriðjudaginn ætluðum við að prufa veitingastaðinn Volare. Ég fann heimasíðuna en þar er enginn matseðill. Þeir segja að það sé vegna þess að þeir vilji breyta honum reglulega eftir því hvaða hráefni er til. Sjálfur skil ég ekki alveg hvað er svona erfitt við að uppfæra heimasíðu á hverjum degi. Væntanlega eru þetta yfirleitt einhverjir af sömu réttunum þannig að þetta er klippilímivinna.

Við ákváðum að kíkja þarna samt. Það var matseðill fyrir utan. Vandinn var að hann var handskrifaður og illlæsilegur. Þar komu bara fram nöfnin á réttunum sem voru ekkert kunnugleg eða girnileg. Það gæti vel verið að eitthvað hafi verið stórgott þarna en aðstendur Volare virtust ekki spenntir að upplýsa okkur um það.

Við ákváðum því að trítla upp að öðrum stað aðeins fyrir ofan. Á leiðinni rákumst við á Núðluhúsið og matseðilinn þar. Við ákváðum því bara að stökkva þangað og borða. Allt mjög greinilegt og augljóst. Líka myndir með. Ég var sáttur með að hafa ekkert verið að eltast við Volare.