Undarlegar fýsnir uppfylltar

Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvað það er sem heillar mig við bakstur. Það er nefnilega eitthvað sem ég fæ út úr því. Vissulega er gaman að búa til eitthvað sem er gott á bragðið og að gefa öðrum slíkt en það er eitthvað meira.

En ég hef verið að gera tilraunir með brauðbakstur í viku. Í dag keypti ég mér almennilegt aflangt form og prufaði. Útkoman var nokkuð góð og í raun stórkostleg miðað við það sem ég bjó til fyrir viku síðan. Í þetta skipti breytti ég engu frá uppskrift Nönnu nema að ég setti með kornblöndu sem við keyptum í Krónunni í gær.

Brauð númer 4
Brauð númer 4

Lengi vel hefur mig langað að læra að búa til almennileg brauð en lítið gengið. Þau hafa vissulega verið æt og jafnvel góð en almennt asnaleg í laginu og mislukkuð að ýmsu leyti. Einfalda uppskriftin frá Nönnu varð mér hvatning til að læra þetta og ég er núna nokkuð öruggur með mig og stefni á að gera fleiri tilraunir í framtíðinni.

Og ég fæ eitthvað skrýtið út úr þessu. Eygló sagði að ég væri að horfa á brauðið eins og þetta væri meistararitgerðin mín en hið augljósa er að ég horfði aldrei svona á ritgerðina mína.