Rekkjan og Betra bak

Við Eygló vorum að fá okkur nýtt rúm. Við tókum á föstudaginn og fórum í tvær búðir. Við fórum fyst í Betra bak. Ég varð strax frekar áhugalaus um að versla við þá búð af því að það var ekkert merkt þar. Eygló talaði við afgreiðslukonu sem ætlaði strax að fara að selja okkur eitthvað rúm sem kostaði meira en hálfa milljón. Þegar henni var gert grein fyrir því að það væri ekki í bögdetinu okkar þá sýndi hún okkur eitthvað annað rúm sem kostaði víst eitthvað aðeins minna. Við spurðum hve mikið það kostaði og hún þurfti þá að fara í tölvu og fletta því upp, það tók svona 3-5 mínútur hjá henni.

Munurinn að fara í Rekkjuna sem er rétt við hliðina var algjör. Allt nákvæmlega merkt. Við gátum bara hunsað það sem var yfir okkar verðmarki og einbeitt okkur að hinum (og flest var reyndar mjög hóflega verðlagt sýndist manni). Það var líka engin uppáþrengjandi. Okkur var boðin aðstoð en annars gátum við bara trítlað á milli rúma og fundið hvað okkur líkaði.

Reyndar gerðist svoltið skondið þegar við vorum í þessu öllu. Gömul kona kom inn í búðina þar sem lágum í rúmi beint við innganginn. Hún byrjaði að rausa eitthvað um að það væri nú lúxus að fá að prufa rúmin og spurði okkur hvað það kostaði. Við héldum fyrst að hún væri að grínast en svo var ekki. Hún var bara svoltið skrýtin en þó aðallega bara fyndin.

Við fórum aftur í Rekkjuna á laugardag þar sem við vorum að velja milli tveggja dýnutegunda. Við spurðum afgreiðslumanninn hver væri munurinn á þeim og hann sagði að í raun væri þetta bara spurning um hvað okkur þætti þægilegra. Það var töluverður verðmunur á þessum dýnum og hann hefði alveg getað farið að tala um að sú dýrari væri miklu betri án þess að vissum nokkuð í raun um það. En hann gerði það ekki.

Ég var því ákaflega ánægður með Rekkjuna og, svo lengi sem rúmið valdi ekki vonbrigðum, reyna að versla þar aftur og benda fólki í kringum mig að versla þar líka.