Michael Jackson

Það var meira en lítið skrýtið þegar við komum heim úr bíó (sólarlagsáhorfi) að heyra að Michael Jackson væri dáinn. Ég hlustaði á nokkur lög, á skammarlega fá, og kíkti á myndböndin sem fólk var að setja inn á Facebook. Ég var búinn að gleyma sumum lögunum og ég var svo sannarlega búinn að gleyma því hvað kallinn gat dansað. Maður er vanur endalausum myndböndum með stórum samhæfðum dansatriðum en þau eru bara brandari miðað við hvernig hann gat hreyft sig.

Ég setti líka sjálfur inn löngu útgáfuna af Thriller. Þegar ég var mjög ungur drengur laumaðist Hafdís systir mín til að sýna mér það myndband sem ég átti væntanlega ekkert að fá að sjá.

Ég á tvö lög með Jackson sem fáir eiga. Það er útgáfa af State of Shock þar sem Freddie syngur og There Must be More to Life Than This þar sem Jackson syngur. Þeir voru, áður en Jackson varð of furðulegur, góðir vinir. Það var MJ sem stakk upp á því að gefa út Another One Bites the Dust sem var mesti smellur Queen í BNA.

Það er líka ágæt saga til af því þegar Freddie heimsótti Michael á heimili hans sem var forveri Neverland. Freddie þótti lítið til koma, sjálfur eyddi hann peningunum í listaverk frekar en leikföng, og sagði: “What a waste, all that money, and no taste”.

Ég veit ekkert frekar en flestir hvort að Jackson var sekur um það sem hann var ásakaður um. Ég er hins vegar á því að maðurinn hafi átt mjög bágt. Hann varð of frægur of ungur og uppeldið sjálft var frekar vafasamt. Síðustu árin þá einfaldlega vorkenndi maður honum.

Ég ætla því nú frekar að líta til þess hvernig hann var þegar ég var lítill. Frábær söngvari og  lagahöfundur. Ég held að það sé betra.