Indian Curry Hut

Þegar maður fer aftur í heimabyggð þá fylgir því að fara á veitingastaði sem maður borðaði oft á hér áður fyrr. Þegar við skruppum til Akureyrar um daginn ákváðum við að gera svolítið öðruvísi. Við keyptum mat á Indian Curry Hut.

Staðurinn er í götunni sem ég vil kalla göngugötuna þó bílum hafi verið hleypt á hana aftur. Húsið er gamall söluturn sem var í niðurníðslu í langan tíma. Bara fyrir að hafa lífgað upp á miðbæinn með þessum hætti fá eigendurnir stóran plús.

Við vorum fjögur og keyptum okkur fjóra rétti. Eitt það góða við indverskan mat er að maður getur auðveldlega deilt réttum. Þetta þýddi um leið að við gátum keypt okkur sterkasta réttinn á matseðlinum vitandi að þó maður yrði ekki hrifinn þá væri nægur matur til. Við keyptum því Vindaloo kjúkling sem ég hef oft heyrt um en man ekki eftir að hafa séð áður á íslenskum indverskum veitingastöðum.

Ég féll alveg fyrir þessu. Ég sá bara eftir því að þurfa að deila þessu með hinum. Sem betur fer þótti Hafdísi og Eygló þetta fullsterkt þannig að þær voru mest í hinum réttunum. Tikka Masala kjúklingurinn var líka góður, hugsanlega sá besti sem ég hef smakkað en miðað við Vindaloo var hann frekar óspennandi.

Það er því nokkuð ljóst að ég hef fundið mér nýjan stað til að fara á í gamla bænum. Ég er reyndar nokkuð viss um að ég mun bara stökkva sífellt og endalaust á Vindaloo af því að þetta er satt best að segja besti indverski rétturinn sem ég hef smakkað.

Verðið var líka fínt, kostaði rétt um 2000 á mann með aðalrétt og naan brauðum.

Tveir þumlar upp. Kíkið á þetta.