Af bannmerkingum og hringidónum

Ég stend í mínu stríði við Tryggingamiðlun Íslands. Það virðist vel til fundið að nota tryggingafélagið mitt sem millilið því skv. þeim þá hefur númerið mitt verið tekið af skrá hjá þeim – loksins. En þeir notuðu þá afsökun að gsm símanúmerið mitt væri ekki bannmerkt. Það stemmir ekki við skráninguna í Símaskrá en mér dettur í hug að þeir hafi kannski verið að nota einhvern lista frá Voðafón. Þar veit ég ekki til að manni standi til boða að bannmerkja sig.

En ég held að það eigi ekki að skipta máli því í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga stendur:

28. gr. [[Um andmælarétt hins skráða og um bannskrá Þjóðskrár.]1)
[…]
[Þjóðskrá skal halda skrá yfir þá sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi. Dómsmálaráðherra setur, í samráði við Persónuvernd, nánari reglur2) um gerð og notkun slíkrar skrár og hvaða upplýsingar skuli koma þar fram.]1) Ábyrgðaraðilar sem starfa í beinni markaðssókn og þeir sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi skulu, áður en slík skrá er notuð í slíkum tilgangi, bera hana saman við skrá [Þjóðskrár]1) til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku.

Ég hef skráð sjálfan mig á þessa bannskrá. Það þýðir að fyrirtæki sem er með lista frá til dæmis símafyrirtæki á að bera þann lista saman við þennan lista Þjóðskrár áður en haft er samband við fólk. Það þýðir að þó ég hafi óafvitandi lent á þeirra lista þá var það á þeirra ábyrgð að athuga hvort ég hefði afþakkað svona símtöl.

Samkvæmt umræddum lögum er Persónuvernd sá aðili sem ég á að kæra til og ég mun að öllum líkindum gera það. Ég held líka að svona lög fúnkeri ekki nema að til séu þrjóskir og pirrandi einstaklingar sem kæri þegar það á við.