Annáll 2009

Þegar ég horfi á árið þá sé ég ekkert orð til að lýsa því. Það var bæði mjög vont og mjög gott. Hápunkturinn var án efa (erfið) fæðing Gunnsteins og svo allt stúss sem honum hefur fylgt síðan. En árið byrjaði ekki svo vel.

Ég fékk piparúða í andlitið rétt eftir miðnætti þann 21. janúar þegar ég tók þátt í mótmælum. Reyndar var ég ekki einu sinni að mótmæla þegar ég var úðaður heldur var ég að reyna að taka upp ofbeldi lögreglumanns. Engin viðvörun. Það var ekki bara ógeðslega sárt og ógnvekjandi heldur sé ég núna eftir á hve lengi ég var að jafna mig á þessu andlega – ég fór úr jafnvægi og leið illa í einhvern tíma eftir á þó ég hafi reynt að hunsa það og fela. Það eru líklega eðlileg viðbrögð þegar maður verður fyrir ofbeldi. Ég fann það líka um daginn að mér leið illa að vera nálægt lögreglumanni þó sá hafi eflaust verið alsaklaus.

Ég varð þrítugur í febrúar og kom þá umfjöllun um mig í Fréttablaðinu þar sem ég tilkynnti óléttu Eyglóar fyrir alþjóð. Ég fann annars ekki neina breytingu á sjálfum mér. Ágætis afmælisveisla haldin.

Ég veit ekki hvenær ég tók ákvörðun um að leyfa skegginu að síkka. Það er orðið töluvert glæsilegt núna og þar sem Eygló er ekki enn farin að kvarta er ég ekkert á leiðinni að stytta það.

Ég kláraði meistararitgerð mína í þjóðfræði í maí og útskrifaðist í júní. Ég mætti í útskriftina klæddur í skotapils en flestir í kring reyndu að láta eins og ekkert væri undarlegt við það. Í framhaldinu gaf ég síðan ritgerðina út í bókarformi (Eve Online: Leikir, sköpun og samfélög) í samstarfi við Þjóðfræðistofu. Ég skrifaði líka grein og flutti fyrirlestra. Ef aðstæður hefðu verið aðrar hefði ég líka farið á ráðstefnu í Aþenu þar sem ég hafði verið samþykktur inn en ekkert varð að því.

Þann 17. júlí fæddist síðan drengur sem fékk tveimur dögum seinna nafnið Gunnsteinn Þór í höfuðið á tveimur langöfum (Gunnsteini og Gunnþóri). Ólíkt því sem gerðist þegar þrítugasti afmælisdagur minn rann upp fyrr á árinu þá hef ég fundið ákveðin þroskamerki á sjálfum mér í kjölfar þess að stubburinn kom í líf mitt. En það er aðallega bara yndislegt hvernig hann brosir til mín – sérstaklega nær sjálfkrafa bros þegar hann hefur ekki séð mig í einhvern tíma.

Í janúar varð ég formaður Vantrúar (á bara nokkrar vikur eftir í því hlutverki). Í byrjun júní varð ég formaður Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Síðan var ég nú nýlega skipaður í Hverfisráð Breiðholts af VG (tók við af formanni múslimafélagsins). Mjög ólík trúnaðarstörf þar á ferð.

Á árinu lærði ég að baka almennilegt brauð og hef síðan í maí ef ég man rétt varla þurft að kaupa slíkt. Ég hef reynt að vera duglegur að baka almennt. Ég horfði líka mikið á Star Trek – meira af því síðar.

Framtíðin er hið óuppgötvaða land en vandamál mitt er aðallega að ég hef svo margar hugmyndir að ég get ekki valið á milli þeirra. Ég býst þó fastlega við að ég geri grein fyrir árangri af einhverjum þeirra í næsta annáli.