Horfði

Ég horfði á formennina og Þráin tala í kvöld. Mér þótti Jóhanna taka þetta vel, óvenjuvel. Bjarni var sérstaklega slakur og virtist aðallega treysta á að hans fólk hefðu tekið hljóðið af þegar Jóhanna talaði. Steingrímur var bara eins og hann er – fyrst og fremst sannfærandi. Sigmundur Davíð var skárri en ég bjóst við en þemað hjá honum var að segja að öllum rökum stjórnarinnar hefði verið svarað en hafði samt ekki fyrir því að súmmera aðeins upp hvernig það hefði verið gert. Hann virtist aðallega vera að skjóta á fólk fyrir að segja já. Ég hef bara ekkert að segja um Birgittu. Aðallega tilfinningarök sýndist mér. Þráinn var þægilega öðruvísi.

En þetta var síðasti séns til að sannfæra mig. Ég er enn á því að þetta hafi verið það besta í stöðunni. Það er rétt að muna að við erum í raun fyrst og fremst að taka ábyrgð á verkum ríkisstjórna en ekki einkaaðila. Þessi útrás fór fram með vilja, vitund og stuðningi okkar stjórnvalda. Okkar ráðherrar lýstu því ítrekað yfir að íslensku bankarnir væru traustir og tóku þátt í þeim blekkingarleik sem varð til þess að fólk lagði peninga sína þarna inn. Sama á við um fyrrverandi seðlabankastjóra sem sagði í bresku sjónvarpi að bankarnir myndu aldrei falla og ef svo ólíklega vildi til að þeir myndu falla þá gæti ríkið bjargað málunum.  Þetta var ekki mitt fólk en því miður var þetta okkar fólk. Við getum ekki hunsað það.

Hin hliðin er að ég held að við værum meira fökkt ef við samþykktum þetta ekki en það eru veigaminni rök.