Þjóðaratkvæðagreiðslan og buxnaskálmar tímans

Förum aðeins aftur í tímann. Segjum að í stað þess að skoða það hvort hægt væri að semja við Breta og Hollendinga upp á nýtt þá hefði ríkisstjórnin eytt tíma sínum í að sannfæra þjóðina um að samþykkja Icesve-lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef svo væri þá snerist þessi kosning mögulega um eitthvað.

Það sem ríkisstjórnin gerði var að fara í samningaviðræður í mun nánara samstarfi með stjórnarandstöðunni en hefur nokkru sinni sést á Íslandi. Ríkisstjórnin gerði sitt besta til þess einmitt að “já” væri óviðunandi kostur í þjóðaratkvæðagreiðslunni þó það væri beinlínis til þess fallið að láta fyrri samning hennar líta verr út.

Að sjálfsögðu er þjóðaratkvæðagreiðslan marklaus. Þegar stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkar fóru saman að reyna að landa betri samningi þá voru menn í raun að sammælast um það. Samningaviðræðurnar tóku “já” valkostinn út af borðinu og ef það er bara einn kostur í kosningum þá eru þær marklausar. Þetta kemur ofan á þá staðreynd að “nei” kosturinn hefur alltaf verið mjög óskýr enda halda margir að þeir geti í raun hafnað Icesave ábyrgðum með öllu með því vali.