Á kjörstað – að skila auðu – leynilegar kosningar

Það var nú ekki mikið að gera í Íþróttamiðstöðinni Austurbergi. Við komumst strax að. Ég áttaði mig hins vegar á því þegar ég kom að ég var ekki alveg viss hvernig þetta virkaði í raun þegar maður skilar auðu. Má maður setja atkvæðisseðilinn beint í kjörkassann? Brýtur það ekki gegn hugmyndinni um leynilegar kosningar?
Ég veit að það hljómar asnalega þegar ég hef þegar upplýst hvernig ég notaði atkvæði mitt en aftur á móti er rétt að benda á að ég gæti verið að ljúga og ég tel það í raun rétt hvers manns að segja ósatt um hvernig hann kaus til að losna við utanaðkomandi þrýsting. Ef ég hefði til dæmis rosalegar áhyggjur af því hvaða álit Steingrímur Joð hefur á mér (ég geri reyndar ekki ráð fyrir að hann viti hver ég er) þá myndi ég kannski hafa (slíkt egó að ég hefði) áhyggjur af því að einhver sæi hvort ég færi í kjörklefann eða ekki. Ef mér er heimilt að láta atkvæðið beint í kjörkassann þá hef ég í raun að einhverju leyti misst rétt minn til að halda atkvæði mínu leyndu. Það á enginn á kjörstað að vita hvernig ég nota atkvæði mitt.

Ég tók þarafleiðandi þá ákvörðun að kíkja eldsnöggt inn í kjörklefann. Ég nennti reyndar ekki einu sinni að skoða kjörseðilinn sem eftir á að hyggju voru mistök því það er svo sem fræðilegur möguleiki að fólkið í kjördeildinni hafi verið búið að fylla hann út fyrir mig. En ég var með drenginn í fanginu og vildi bara ljúka þessu af.

Þannig að ég gæti verið að ljúga. Ég hefði getað rifið blýantinn snöggt upp, krossað við það sem ég vildi í raun án þess að nokkur vissi hvað var á seyði. Er ekki ágætt að sá möguleiki sé fyrir hendi ef maður er hlynntur leynilegum kosningum?