Þegið þið Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn

Mér hefur þótt ákaflega erfitt að forðast það í þetta nærri eitt og hálft ár sem VG hefur verið í ríkisstjórn að sleppa því að svara gagnrýni Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks með því að segja: Haldið þið bara kjafti. Hrunið var fyrst og fremst ykkur að kenna og þið hafið ekkert með það að væla yfir hreinsunarstörfunum.

Ástæðan fyrir þessu er einföld. Við þurfum gagnrýni á stjórnmálaflokka. Það væri vissulega betra ef hún væri heiðarlegri en þöggun er aldrei leiðin. Ég held að langlundargeð okkar VG fólks sé hrósvert í þessu sambandi.

Aðferðafræði Besta flokksins byggir hins vegar á því að segja gagnrýnendum flokksins að þegja. Besti flokkurinn er hafinn yfir gagnrýni enginn skal voga sér að efast um gildi þess að kjósa hann og spyrja hvað í ósköpunum gerist síðan ef hann fær einhver völd.

En síðan er náttúrulega vonleysið sem færist yfir mig þegar ég skrifa þetta. Allt sem maður segir er afskrifað um leið. Engum dettur í hug að gagnrýni á Besta flokkinn geti verið sett fram af heiðarleika.