Stærsti vatnsglasstormurinn í dag

Segjum að ég vildi koma upplýsingum til fjölmiðla um hvað sem er, til dæmis fyrirlestur á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi, og til þess skrifa ég fréttatilkynningu. Hvernig geri ég það? Ég hef ýmsar upplýsingar bæði um fyrirlesturinn og fyrirlesarann. Ég vel og hafna upplýsingum til þess að hafa tilkynninguna þannig að hún sé líklegust til þess að vekja athygli og komast í fjölmiðla. Ég hef aldrei álitið þetta sérstaklega vafasamt athæfi.

Ég las í gær frétt Grapevine um póstinn frá honum Elíasi. Ég verð að játa að ég las bréfið sjálft nokkuð oft í gegn til að sjá hvort þar væri eitthvað vafasamt en fann ekki (nema kannski ákvörðun blaðamanns að þýða orðið prjóna á ensku með hinu gildishlaðna orði “spin”). Þar var engin tilraun til að fela upplýsingar fyrir fjölmiðlum eða afvegaleiða þá. Þetta leit bara út eins og einn af ótal tölvupóstum sem eru væntanlega sendir í hverri viku þar sem menn eru að ákveða hvaða atriði eigi að leggja áherslu á við fjölmiðla.

Kannski eru menn miður sín yfir því að upplýsingum sé stundum lekið í fjölmiðlamenn áður en þeir eru formlega tilkynntir? En það bendir ekkert til þess að hugsunin á bak við það hafi verið sú að fela eitthvað eða afvegaleiða umræðuna.

Það sem eftir stendur sem hið eina sem ég hef raunverulega séð fólk hneykslast á er orðaval Elíasar þegar hann fagnaði lausninni sem komin var fram í málinu. Ég get ekki kvartað yfir því hvaða orð Elías valdi þegar hann ætlaði að deila gleði sinni með einhverjum samstarfsmanni eða vini enda nær það ekki einu sinni að vera niðrandi fyrir einn eða neinn. Ég hef bara ekki alist upp í svo vernduðu umhverfi að svona orð hafi áhrif á mig. Ef ég ætti að tala um orðaval vinnufélaga minna í gegnum tíðina þá held ég að fólk yrði meira hneykslað á virðulegu konunum heldur en byggingaverkamönnunum.

Ef fólk vill að það sé venjulegt fólk í ábyrgðarstöðum hjá ríkinu þá veit ég ekki um neitt venjulegra, eða öllu heldur alþýðlegra, heldur en litríkt orðaval.