Að lágmarka framboðskostnað

Ég hef áður lýst því yfir að ég ætli að reyna að eyða sem minnstum peningum í framboð mitt og til þessa eru útgjöld mín á núllinu. Ég hef séð ýmsa frambjóðendur segja að það sé ómögulegt en í mínu tilfelli er það satt.

Þegar ég segi á núllinu þá meina ég það. Ég eyddi engu í akstur þegar ég var að safna meðmælendum. Ég notaði strætókort sem ég hafði þegar keypt. Ég notaði tölvusamskipti til að biðja um hjálp við meðmælasöfnun eða að biðja fólk um undirskrift – yfirleitt var þetta þó í eigin persónu.

Eygló hefur líklega notað símann þegar hún bað mömmu sína að safna meðmælendum á Vopnafirði en það hefur verið hluti af þeirri notkun sem við eigum inni í hverjum mánuði og síðan talaði hún líka við mömmu sína um ýmislegt annað. Nú hefur mamma Eyglóar kannski eytt pening með því að koma við hjá tengdaforeldrum sínum á leið í eða úr vinnu. Sumsé bensíneyðsla við að setja bílinn einu sinni í gang. En mögulega átti hún hvorteðer erindi þarna. Hún kom síðan með listann hingað í fyrirfram ákveðinni ferð.

Hafdís systir mín, eða Mummi mágur, splæstu frímerki þegar þau sendu meðmælablöðin hingað suður. Þar er fyrsti beini kostnaðurinn. Ég athugaði ekki hvað það hefur kostað þau.

Þegar ég fór með meðmælalistann á Alþingi þá notaði ég strætókortið mitt.

Ég borgaði hýsingu á þessum vef löngu áður en ég ákvað að fara í framboð.

Myndin af mér sem ég nota í þessum kosningum var tekin af Matta fyrir næstum tveimur árum.

Sumsé, ég hef ekki borgað neitt til að koma sjálfum mér í framboð og efast um að það breytist nema að ég þurfi að mæta eitthvert þar sem strætósamgöngur eru lélegar.