Af hinsegin málum

Svavar skrifar færslu með svörum við spurningar sem hafa víst komið frá Samtökunum 78. Ég hef ekki séð þær en svara samt.

1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?
Þetta er bara fólk.

Ef ég hafði einhvern tímann fordóma gagnvart samkynhneigðum þá komst ég yfir þá þegar ég var ítrekað kallaður hommi 13 ára fyrir að vera hrifinn af Queen. Ég játa hins vegar að ég var, á unglingsárum mínum, smá tíma að átta mig á transfólki þegar Anna Kristjánsdóttir kom umræðunni af stað. En það var ekki mjög erfitt að komast yfir það.

2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?
Ég styð að þessi réttindi verði tryggð í stjórnarskrá og ég myndi nú ekki bíða lengi á stjórnlagaþingi eftir því að einhver annar myndi opna þessa umræðu.