Ég vil endilega hvetja ykkur til að mæta á kjörstað á morgun og kjósa… mig. Þið megið vissulega kjósa aðra en þá skulið þið helst raða númerum þeirra fyrir neðan mitt. Það er langskilvirkast. Fyrir mig.
En í alvöru. Ég er langt kominn með listann sem ég ætla að fylla út á morgun. Það eru ótal góðir kostir í boði. Ég set reyndar sjálfan mig efst en það er erfitt að velja bara 24 þar fyrir neðan. Ég er alltaf að skipta fólki út þó það sé kannski 10 sem eru algjörlega öruggir. Ég verð að játa að nokkrir þeirra sem ég kýs eru vinir og kunningjar. Ég er ekki að kjósa þá af því að þeir eru vinir og kunningjar heldur af því að ég tel að þeir hafi erindi á stjórnlagaþing. Það skiptir mig litlu að fæstir þeirra séu beint líklegir til þess að komast inn enda væri það undarlegasta taktíkin. Maður ætti þá bara að fara yfir listann og pikka út frægasta fólkið af því að það er líklegast til að komast inn.
Það er mjög ólíklegt að atkvæðið mitt gæti komið sérstaklega mörgum til góða – hvernig sem ég vel – en ég geri fastlega ráð fyrir að einhverjir á listanum geti nýtt það. Um leið tel ég að það sé engin sóun að setja fólk á kjörseðilinn þó það komist ekki inn. Kerfið er í raun hannað þannig að það kemur ekki að sök og þannig getur fólk sem virðist ólíklegt að komist inn átt möguleika.