Kjararáð og Hæstiréttur

Eins og menn vita þá úrskurðaði Kjararáð að dómarar skyldu fá feita launahækkun frá og með fyrsta febrúar. Ég kíkti aðeins á úrskurðinn og á það hverjir væru í ráðinu.

Ég verð að játa að ég varð smá gáttaður. Tveir voru á móti hækkuninni en þrír með. Tveir af þeim sem vildu launahækkanirnar voru lögfræðingar sem er frekar bjánalegt. Mega þeir reka mál frammi fyrir dómurum sem þeir hafa sópað peningum til? En það sem er eiginlega óskiljanlegt er að annar þessara tveggja, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, er skipaður af Hæstarétti. Hvernig getur það staðist? Alveg get ég trúað því að þetta sé á einhvern formlegan hátt löglegt en fjandi er þetta siðlaust.

Viðbót: Vilhjálmur er líka í Landsdómi. Hann mun væntanlega víkja sæti þegar kemur að því að Kjararáð úrskurði um laun dómenda í Landsdómi en mikið er hentugt fyrir hann að Kjararáð er nýbúið að hækka launin hjá augljósasta viðmiðunarhópnum. Hinn lögfræðingurinn, Jónas Þór Guðmundsson, er varamaður.